Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Jarðhitinn stýrir skjálftunum við Krýsuvík
Kort af Skjálfta-lísu Veðurstofu Íslands sem sýnir jarðskjálfta á Reykjanesskaga frá því um miðjan júlí og til dagsins í dag. Svæðið við Krýsuvík er áberandi virkt.
Fimmtudagur 9. október 2025 kl. 09:45

Jarðhitinn stýrir skjálftunum við Krýsuvík

Engin merki um kvikuinnstreymi

Tíðir jarðskjálftar við Krýsuvík síðustu vikur hafa vakið athygli, en samkvæmt Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, benda mælingar til þess að skjálftarnir séu tengdir jarðhitavirkni fremur en kvikuinnstreymi.

Aukið gufustreymi og landsig

„Jarðhitavirknin hefur eitthvað aukist undanfarið, sem kemur fram í aukinni suðu og gufustreymi upp til yfirborðs,“ segir Magnús Tumi í samtali við Víkurfréttir.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Hann útskýrir að þegar vatn gufar upp úr jarðhitakerfinu tapast dálítill massi, sem veldur því að landið sígur örlítið. „Samhliða geta verið auknir jarðskjálftar. Þetta passar við það að þrýstingur í jarðhitakerfinu hefur aðeins lækkað, við það lækkar suðumark vatnsins og meiri gufa berst til yfirborðs,“ segir hann.

Svipað og í Svartsengi

Magnús Tumi bendir á að svipuð virkni hafi sést í Svartsengi um langt skeið, þar sem landsig tengist breytingum á þrýstingi í jarðhitakerfinu.

„Þar sem þetta gerist, til dæmis í jarðhitakerfum sem hafa verið virkjuð, verður dálítið landsig. Þetta hefur m.a. sést í Svartsengi í langan tíma. Mögulega tengist þetta eitthvað nýju borholunum sem verið er að bora – að við það hafi þrýstingur lækkað aðeins,“ segir hann.

Engin merki um kviku

Prófessorinn segir ekkert benda til þess að kvika sé á hreyfingu undir svæðinu. „Engin merki sjást um innstreymi kviku. Ef kvika væri að flæða inn, myndi vera landris samhliða,“ segir hann og bætir við að breytingarnar virðist eiga sér stað mjög grunnt í jarðskorpunni, í um einn til tvo kílómetra dýpi.

Jarðhitakerfið stjórnar breytingunum

Samkvæmt Magnúsi Tuma er því líklegast að jarðhitakerfið sjálft stýri breytingunum sem nú mælast á svæðinu. „Allt bendir til þess að jarðhitavirknin stýri þessu, engin merki eru um kvikuinnstreymi. Ekki er ósennilegt að borunin hafi þarna einhver áhrif,“ segir hann að lokum.

Ljósmynd: Jón Steinar Sæmundsson

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025