Fjölmennur íbúafundur í Grindavík með forsætisráðherra þar á meðal
„Ég kom til Grindavíkur tíu dögum fyrir kosningarnar í nóvember í fyrra og mér finnst mikill munur vera á öllu í dag, tæpu ári síðar,“ sagði Kristrún Frostadóttir, á opnum íbúafundi sem haldinn var í Gjánni í Grindavík í dag. Kristún var á meðal þeirra sem töluðu á fundinum og að loknum ræðum allra frummælenda, var opið fyrir spurningar Grindvíkinga og úr urðu gagnlegar og góðar umræður. Elif Ayhan frá Alþjóðabankanum var ein þeirra sem talaði og ríkti mikil ánægja á meðal Grindvíkinga um tækifærin sem hún sér í Grindavík.
Aðrir frummælendur voru Árni Þór Sigurðsson, formaður Grindavíkurnefndarinnar og Hildigunnur H.H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands.
Þegar opnar spurningar voru leyfðar bættust Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu, og lögreglustjóri Suðurnesja, Margrét Kristín Pálsdóttir, við og svöruðu spurningum Grindvíkinga.
Sjónvarpsviðtöl voru tekin við Kristrúnu, Árna Þór og Grindvíkinginn Pétur Pálsson.


