Thrifty Fólksbílar

Aðsent

Vetrarnótt í október
Sunnudagur 28. febrúar 2021 kl. 07:36

Vetrarnótt í október

Ég veit ekki hvað vakti mig dimma vetrarnótt í október en hitt er víst að ég fór á fætur í myrkrinu, klæddi mig, gekk út og skundaði út Garðveginn áleiðis út að Garðskaga. Nóttin var dimm, tungl óð í skýjum, stillur, frostharka en snjólaust. Ég flýtti för, hvers vegna veit ég ekki. Ég veit í rauninni ekki heldur hvers vegna ég var allt í einu kominn af stað út að Garðskaga – en ég flýtti mér eins og áður sagði.

Ég gekk út eftir, út skagann, þar til ég var kominn að fjörunni. Ég gekk um fjörukambinn í ljósi af mána sem hafði lýst mér alla leiðina út veginn frá skólanum í Garði. Ég fór niður í fjöruna og gekk þar um hvítann sandinn. Í annarlegri birtu frá skini tunglsins mátti sjá skipsflök og tanka sem lágu fyrir utan flösina enda hafa mörg skip farist á Garðskagaflös.

Ég veit ekki enn hvað leiddi mig en ég gekk einhvern veginn í leiðslu út með ströndinni til vesturs í átt að Sandgerði. Sjórinn vætlaði við skóinn minn.

Skyndilega var eins og eitthvað innra með mér segði: Hér skaltu stansa, kallinn minn. Og ég, lítill snáðinn, stansaði og fór að líta í kringum mig. Og þá gerðist það: Ég sá bein sem skolaðist upp að ströndinni, upp á hvítan sandinn í Garðskagafjöru, nánast við fætur mér.

Leggur úr lambi

Þetta var lærleggur og ég hélt í fyrstu að þetta væri lærleggur úr lambi. En við nánari skoðun sá ég að það gat ekki verið vegna þess að leggurinn var nokkru lengri en svo. Ég tók upp legginn sem ég hélt vera og skoðaði.

En þá fann ég að eitthvað var öðruvísi í fjörunni, eitthvað hafði breyst. Ég leit upp! Fjaran var full af fólki, karlmönnum. Þeir stóðu þarna allt í kringum mig, tugir manna í sjóstökkum. Þeir horfðu á mig og ég fann að þeir áttu eitthvert erindi við mig.

Ég hélt á leggnum og horfði á þá undrandi en óhræddur. Einn þeirra tók sig út úr hópnum, horfði á mig og sagði: „Merci, mon petit garçon – þakka þér fyrir piltur minn.“ Og ég fann hvernig þessi maður horfði á mig með svolítið vonarblik í auga.

Ég horfði á legginn sem ég hélt á milli handanna. Og ég horfði einnig til karlanna í fjörunni og þó alveg sérstaklega á þennan mann sem talaði til mín á frönsku. Ég skildi í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut í hvað hann var að segja. Þó vissi ég einhvern veginn að hann var að þakka mér fyrir eitthvað.

Útskálakirkja

Ég gekk aftur af stað upp fjöruna, upp hvítan sandinn, yfir svolítinn malarkamb sem var efst og yfir hann og síðan af stað til baka. En í þetta skiptið fór ég ekki heim til mín í skólann í Garðinum, heldur hélt ég áleiðis að kirkjunni minni, Útskálakirkju. Ég gekk fram hjá Presthúsum eins og þau hétu og heita víst enn. Ég gekk niður veginn að Útskálakirkju.

Ég gekk að prestssetrinu og bankaði á dyr hjá séra Eiríki, prestinum mínum. Hann kom strax til dyra þótt hánótt væri. Hann horfði á mig svolitla stund og sagði svo: „Vinur minn, ég var að búast við þér. Þess vegna er ég fullklæddur. Ertu með legginn?“ „Já,“ sagði ég.

Hann kom út og sagði: „Vertu ekki hræddur, vinur minn. Komdu með mér út í kirkjugarð hérna austan við kirkjuna.“ Hann tók í höndina á mér og leiddi mig þennan stutta spöl niður í kirkjugarð. Við opnuðum hliðið. Það ískraði svolítið í því. Tungl óð í skýjum. Ég hélt á leggnum eins og verðmæti við brjóst mér. Við gengum inn um garðshliðið að kirkjunni og meðfram henni en beygðum síðan svolítið frá tvo, þrjá metra niður í kirkjugarðinn. Presturinn minn sagði:

„Þessi leggur þarf að komast í vígða mold.“ „Já,“ sagði ég. „Ég veit það,“ og um leið og ég sagði þetta gerði ég mér grein fyrir að ég hafði ekki hugmynd um hvað átt var við þegar talað var um vígða mold.

Engill í marmara

Við gengum þarna um í skini af mána. Í miðjum kirkjugarðinum var hvítur engill sem hélt á litlu barni. Við gengum fram hjá englinum þar sem hann stóð í hvítum marmara. Presturinn leiddi mig í vesturhluta garðsins, bak við kirkjuna. Þar stansaði hann við gamla gröf.

Á steininum stendur: „Margrjet Pálína Jónsdóttir, móðir fjögurra barna, fædd 19. mars 1803, dáin 17. október 1840.“

Presturinn sagði: „Komdu með legginn.“ Presturinn benti mér á að grafa með hendinni svolitla leið niður í þessa gömlu gröf svo ég kæmi leggnum niður. Að því loknu settum við mold yfir og presturinn sagði: „Megi blessun hvíla yfir greftrun þinni. Megi sú sem hér hvílir taka þig í sátt í grafreitnum. Guðs blessun fylgi þér á nýjum vegum, franski vinur. Amen.“

Vinur frá öðrum heimi

Presturinn minn stóð upp og tók í höndina á mér. Og það var einmitt þá sem það gerðist: Við litum upp. Fyrir framan okkur stóð maðurinn sem ég hafði hitt í Garðskagafjöru. Hann horfði á mig og sagði: „Merci“ – og augun ljómuðu.

Ég fann að ég hafði eignast vin úr öðrum heimi. Að því loknu hvarf þessi vinur, hann hvarf úr okkar heimi.

Við gengum saman, ég og presturinn, til baka sömu leið. Þegar kom að prestssetrinu sagði hann við mig: „Þú varst sendiboði í nótt. Það eru fáir sem fá að njóta þess sem þú fékkst að njóta þessa dimmu vetrarnótt.

Farðu nú heim, vinur minn, og leggstu í rúmið þitt. Farðu með bænirnar þínar og segðu við þann sem alltaf hlustar þegar þú ferð með bænina þína, já, segðu þá við hann: „Þakka þér fyrir og ég hefi vissu um að þú hefur tekið vel á móti fransmanninum, vini mínum.“

„Þetta skal ég gera,“ sagði ég við prestinn og við kvöddumst innilega. Að þessu sögðu hvarf presturinn. Og loks þá áttaði ég mig á að presturinn var alls ekki séra Eiríkur Brynjólfsson Útskálaprestur. Þessi prestur var af öðrum heimi. Ég leit upp að prestssetrinu. Þar var ekkert ljós í glugga. Þar var enga hreyfingu að sjá.

Ég fékk styrk

Ég gekk svo til baka að skólanum mínum í Garðinum. Einhvern veginn hafði ég það á tilfinningunni allan tímann að ég væri ekki einn á ferð. Það var eins og ég fengi styrk frá einhverjum sem gekk með mér alla leið. Ég var aldrei hræddur, reyndar þvert á móti. Ég var ánægður og glaður.

Ég fór heim. Amma mín og afi vöknuðu ekki. Þau vissu aldrei af þessu atviki. Ég sofnaði vært eftir að hafa farið með bænirnar mínar og vaknaði daginn eftir hress og kátur.

Á hverju einasta ári í október um svipað leyti og þetta gerðist í æsku minni, vakna ég gjarnan, læðist út, fer út í bílinn minn og ek að Útskálakirkju og fer að leiðinu. Þið getið fundið þennan stað í grafreit í vesturhluta kirkjugarðsins við Útskálakirkju. Þar sjáið þið líklega við leiði gamla rós frá mér. Hún verður gjarnan ársgömul. Ég kem þarna einu sinni á ári.

Frá þeirri stundu sem ég hitti þennan franska vin er ég aldrei einn á ferð. Hann fylgir mér hverja stund. Hann kemur með mér í hús, nokkrum mínútum á undan mér og gerir þá stundum vart við sig. Ég finn fyrir návist hans og það líkar mér vel því ég veit að hann gengur með mér lífsbrautina á enda. Hann er verndari minn.


EFTIR GYLFA GUÐMUNDSSON

Höfundur er búsettur í Keflavík og var skólastjóri Njarðvíkurskóla.

Gylfi ólst upp í Garðinum frá fjögurra ára aldri. Hann bjó í Gerðaskóla hjá afa sínum og ömmu, Sveini Halldórssyni, skólastjóra, og Guðrúnu Pálmadóttur. Hann ólst upp hjá þeim hjónum og átti heima í Gerðaskóla þar til hann var þrettán ára. Atburðir þeir sem frá sagt er frá í sögunni gerðust Þegar Gylfi var á ellefta ári þegar hann átti heima í Gerðaskóla.