Verkalýðsbaráttan heldur áfram
Árið er 2025 og verkalýðsbaráttan heldur áfram. Nú 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, og á Kvennaári er vert að minnast kvennastarfa og þeirrar baráttu sem háð hefur verið í nafni jöfnuðar og kvenfrelsis hér á Íslandi síðustu fimmtíu ár. Því þrátt fyrir háleitar yfirlýsingar um jafnrétti og samfélagslegt réttlæti halda konur áfram að bera óeðlilegar byrðar á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega þær sem starfa við umönnun, kennslu og ræstingar. Konur sem bera samfélagið á herðum sér en fá laun sem eru ekki í neinu samhengi við ábyrgð eða álag. Staðreyndin er sú að atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla og konur af erlendum uppruna búa við lægra launastig og meiri óöryggi en aðrar konur.
Við vitum að launamunurinn er ekki tilviljun. Hann er afleiðing kerfisbundins vanmats á störfum kvenna og kynjaskipts vinnumarkaðar. Þegar við rýnum í starfsmat sveitarfélaga og kerfi viðbótarlauna sjáum við að svokölluð „mjúk störf“ sem krefjast samkenndar, samskiptafærni og ábyrgðar eru metin lægra en störf sem teljast „harðari“ eða tæknilegri – jafnvel þegar menntunarstig og ábyrgð eru sambærileg. Eru þessi störf raunverulega minna virði?
Kennarar, burðarás velferðar og framtíðar, eru meðal þeirra sem finna vel fyrir þessu misvægi. Þeir bera ábyrgð á menntun framtíðarkynslóða, en búa við laun sem spegla ekki þá ábyrgð, þekkingu né álag sem starfið felur í sér. Þær konur sem starfa í leikskólum og grunnskólum, og eru langflestar í meirihluta þar, sjá berlega hvernig þeirra störf eru ekki metin til jafns við störf á karllægum vinnustöðum, þar sem starfsheiti og stig sem sett eru í starfsmat endurspegla ekki raunverulegt virði vinnunnar.
Fjárhagslegt sjálfstæði er frelsi
Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda öryggis, frelsis og lífsgæða kvenna. Þegar konur hafa ekki ráðstöfunartekjur til að lifa af, þá skerðist geta þeirra til að segja upp ofbeldissambandi, sækja sér menntun eða móta líf sitt að eigin vilja. Þegar kerfið metur vinnu kvenna stöðugt lægra, veitir hvorki sambærileg viðbótarlaun né launagagnsæi, þá er það brot á grundvallarrétti til réttlátra starfskjara.
Stjórnvöldum ber skylda til að leiðrétta þetta vanmat. Það verður að eiga sér stað kerfisbundin leiðrétting á virðingu og virði kvennastarfa, með raunhæfri endurskoðun á starfsmati sveitarfélaga og stofnana. Það verður að fara í heildstætt virðismatskerfi sem gerir samanburð mögulegan á ólíkri starfsemi, svo störf með sömu ábyrgð og álag gefi sambærileg laun. Þá verður að gera kerfi viðbótarlauna skýrt og sambærilegt, svo ekki sé hægt að hækka laun sumra hópa með leynd meðan aðrir sitja eftir.
Verkalýðsbarátta framtíðarinnar snýst um virðingu
Það er ekki nóg að tala um jafnrétti á tyllidögum. Við verðum að horfast í augu við það að konur bera enn meiri byrðar og fá minni umbun. Verkalýðsbarátta 21. aldarinnar er barátta fyrir sýnileika, réttlæti og endurmati á því sem raunverulega heldur samfélaginu uppi. Hún snýst um störfin sem gera öðrum kleift að sinna sínum störfum, störfin sem þarfnast umhyggju og tilfinningagreindar og þess að vera stöðugt á tánum og meta stöðuna út frá einstaklingum og þeirra þörfum dag frá degi. Er það ekki allrar virðingar virði?
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir
kennari og leikskólastjóri