Aðsent

Tíminn er fugl sem flýgur hratt
Sunnudagur 17. desember 2023 kl. 12:29

Tíminn er fugl sem flýgur hratt

Kæru Suðurnesjamenn.

Aðventan er margslunginn tími og er afar velkomin hjá okkur sem teljast til jólabarna og viljum vera jólabörn í okkur þótt komin séu vel af eiginlegum barnsaldri. Hún er vissulega svartasta skammdegið og þá eru jólaljósin úti og inni kærkomin til að bregða birtu á umhverfið og inn í sálina. Skömmu fyrir jól nær svo birtan undirtökum og daginn lengir jafnt og þétt með hækkandi sól næstu vikur og mánuði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það tilheyrir aðventunni að líta um öxl. Fólk spyr sig í hljóði: Gekk ég götuna til góðs á árinu sem senn líður í aldanna skaut? Gengum við sem þjóð götuna til góðs? Svari nú hver fyrir sig, að sjálfsögðu en svörin eru væntanlega af ýmsum toga og tilefni skrafs í aðventu- og jólaboðum ef nærtækari og fjölskyldutengdari umræðuefni tæmast.

Milli jóla og nýárs, þegar sjálf áramótin eru innan seilingar, breytist gjarnan þankagangurinn. Við veltum þá frekar fyrir okkur nýja árinu og hvað það beri í skauti sér fyrir okkur sjálf, okkar nánustu, samfélagið og veröldina. Eðli máls samkvæmt eru líklega hvergi á landinu fleiri og áleitnari spurningar um hvað nýtt ár beri í skauti sér en einmitt á Reykjanesi.

Aðventan og sjálfar hátíðirnar eru gjarnan tími til að líta í eigin barm, horfa um öxl en líka fram á veginn. Áramót eru vissulega raunveruleg kaflaskipti í lífshlaupinu og bráðum vöknum við upp við það að komið er árið 2024. Næstum því fjórðungur aldarinnar er að baki, aldar sem okkur finnst flestum að hafi byrjað fyrir skömmu eða því sem næst. Tíminn líður og það fljótt, hann er fugl sem flýgur hratt. Það finnum við öll og höfum ýmis viðmið, þau nærtækustu eru auðvitað árin sem bætast við aldur okkar sjálfra. Og svo eru blessuð börnin allt í einu orðin fullorðið fólk!

Aðventan og jólahátíðin eru samt fjarri því að vera öllum gleðistundir. Ástvinamissir og tilheyrandi sorg og söknuður er sjaldan sárari en einmitt um jól. Að hugsa til jóla nægir til að fá kvíðahnút í maga og sorg í hjarta.

Hjá öðrum er þröngt í búi efnahagslega og fólk sem þannig er ástatt um kvíðir því að halda jól. Fréttir berast af því að fleiri en áður leiti nú til góðgerðarsamtaka eftir mat og fleiri nauðsynjum fyrir jólin. Við sem höfum nóg á milli handanna eigum að láta gott af okkur leiða og láta eitthvað af hendi rakna til þeirra sem eru í neyð. Gjafir gleðja en allra mest þar sem þeirra er beinlínis þörf.

Fátæktin er eitt, einmanaleikinn annað. Jólin eru ekki hátíð þeirra sem einmana eru. Bönkum því á dyr hjá gömlum vini eða einhverjum í fjölskyldunni sem okkur grunar að þiggi félagsskap og samtal yfir kaffibolla eða heitu súkkulaði og smákökum. Síkar heimsóknir eru gefandi, kosta ekki krónu en geta kallað fram bros og stuðlað að bjartsýni í stað depurðar. Heimsóknirnar geta beinlínis orðið til þess að jólin verði gleðilegri en ella hjá viðkomandi.

Árið sem senn rennur sitt skeið á enda hefur verið sérstaklega viðburðarríkt í lífi mínu og starfi. Þar ber hæst að 19. júní, á sjálfan kvenréttindadaginn, tók ég við embætti dómsmálaráðherra. Störfin í dómsmálaráðuneytinu eru fjölbreytt enda málaflokkar margir. Ekkert annað ráðuneyti er með jafn margar undirstofnanir, þær eru hvorki fleiri né færri en þrjátíu og fjórar.

Ég ákvað að leggja í minni ráðherratíð sérstaka áherslu á málefni útlendinga/innflytjenda, lögreglunnar, Landhelgisgæslunnar, fangelsa og kynbundins ofbeldis.

Óþarft er að fjölyrða um að náttúruöflin á Reykjanesi sköpuðu sjálfkrafa fjölþættan verkefnalista ráðuneytis míns og ríkisstjórnarinnar allrar þegar rýma þurfti í skyndingu heilt bæjarfélag, Grindavík, og finna íbúunum samastað og viðunandi tilveru í óvissuástandi sem við vonum öll að vari sem styst.

Við skulum samt vera raunsæ því nú er það sjálf náttúran sem ræður för og enginn segir henni fyrir verkum. Samt getum við og eigum að búa okkur undir það sem hún kann að taka upp á næst.

Suðurnesjamenn brugðust vel og myndarlega við í hvers kyns hjálparstarfi við granna sína í Grindavík. Fyrir það skal þakkað. Hættan er því miður ekki liðin hjá. Óvissan varir og stjórnvöld gerðu þegar í stað ráðstafanir til að verja orkumannvirki og önnur mannvirki í Svartsengi með varnargörðum sem unnið er við allan sólarhringinn. Sú framkvæmd er hugsuð til að verja mikilvæga samfélagsinnviði með öllum ráðum, orkuver sem sér tugþúsundum íbúa á Reykjanesi fyrir rafmagni og vatni, heitu og köldu.

Rifjast þá upp að ýmsum þótti ósennilegt að hægt væri að hafa áhrif á hraunstrauminn frá eldfjallinu á Heimaey fyrir hálfri öld. Þegar hins vegar horft er til baka eru yfirgnæfandi líkur á að sjódæling á glóandi hraunið hafi komið í veg fyrir að innsiglingin til Vestmannaeyja þrengdist mjög eða lokaðist alveg. Sannaðist þar að unnt var með hugviti, áræðni og djörfum ákvörðunum að halda aftur af eyðileggingarmætti náttúruaflanna að þessu leyti. Af þessu má læra.

Þá vil ég geta þess að ég hef sem dómsmálaráðherra skipað tvo almannavarnafulltrúa í fullt starf á Reykjanesi, annan fyrir Grindavík og hinn fyrir Suðurnes. Þannig eflist almannavarnakerfið á svæðinu með vöktun og viðbúnaði. Við vonum innilega hið besta en á sama tíma viljum við vera við öllu búin.

Ég vil að lokum þakka ykkur Suðurnesjamönnum fyrir ómetanlegan stuðning við mig og mín störf. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og innihaldsríkrar jólahátíðar og minni á að aðventan og hátíðarnar eru tími  tengsla, vináttu og kærleika. Ræktum alla þá þætti alveg sérstaklega. Njótum samvista hvert við annað. Megi jólagjöfin okkar í ár verða aukin samvera, nærvera og tími til handa vinum okkar og vandamönnum.

Gleðilega hátíð!

Guðrún Hafsteinsdóttir,
dómsmálaráðherra og oddviti Suðurkjördæmis