Aðsent

Þakklátur fyrir árin í Kölku
Þriðjudagur 2. júní 2020 kl. 09:55

Þakklátur fyrir árin í Kölku

Árin mín í Kölku voru ánægjulegur tími. Eftir að hafa starfað þar sem framkvæmdastjóri á níunda ár, lauk ég störfum í byrjun október 2019 þegar nýr framkvæmdastjóri kom til starfa. Á aðalfundi Kölku nýlega kom fram í ársreikningi 2019 góð afkoma fyrirtækisins enn eitt árið. Hagnaður ársins var liðlega 70 milljónir króna og eigið fé orðið rúmar 400 milljónir króna.

Þegar ný stjórn tók til starfa í Kölku árið 2010 var staða fyrirtækisins erfið, miklar skuldir og eigið fé neikvætt um 600 milljónir króna. Þegar stjórnin auglýsti eftir framkvæmdastjóra árið 2011 var ég alls ekki með það í huga að ætla að ráða mig í fasta vinnu en ég hafði þá nokkrum árum áður selt fyrirtæki mitt, Skipaafgreiðslu Suðurnesja, til Eimskips. Tveir sveitarstjórnarmenn úr sitt hvoru bæjarfélaginu höfðu samband við mig og hvöttu mig til að sækja um starfið. Þeir höfðu væntanlega trú á því að ég gæti lagt eitthvað að mörkum til að snúa mjög erfiðu rekstrarástandi fyrirtækisins til betri vegar.

Í dag er ég þessum aðilum mjög þakklátur og einnig stjórninni sem réð mig til starfa því að eftirá að hyggja hefði ég sannarlega ekki viljað missa af tækifærinu að takast á við þau verkefni sem biðu úrlausnar. 

Þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri var í mörg horn að líta. Helstu verkefnin voru tvímælalaust að laga slæma fjárhagsstöðu, lækka skuldir, laga eiginfjárstöðu úr miklum mínus í góðan plús, taka umhverfismálin fastari tökum, leysa áralangan vanda sem varðaði ráðstöfun uppsafnaðrar flugösku og einnig að koma botnöskunni í réttan ráðstöfunarfarveg. Mörg fleiri verkefni biðu úrlausnar svo sem átak í viðhaldsmálum, breytingar í starfsmannamálum og fleira og fleira.

Með mjög góðu og öflugu samstarfi við góða og samtaka stjórnarmenn, duglega og samviskusama starfsmenn og alla stærstu viðkiptavini, sem meðal annars sýndu nauðsynlegum breytingum á ýmsum sviðum góðan skilning, tókst bærilega vel til við að leysa öll helstu vandamálin.

Þó að oft sé erfitt að nefna einstaka aðila þegar samstaðan er góð þá vil  ég engu að síður nefna þá sem unnu hvað mest með mér og oft af miklu harðfylgi. Þetta voru stjórnarformennirnir Ríkharður Ibsen og Birgir Már Bragason, og af starfsmönnum vil ég sérstaklega nefna Ingþór Karlsson, rekstrarstjóra brennslunnar, og þá Jóhann Kjærbo og Kára Húnfjörð.

Það þarf góða og samtaka heild til að bæta eiginfjárstöðu um meira en einn milljarð króna (eitt þúsund milljónir) á tiltölulega stuttum tíma í ekki stærra fyrirtæki en Kalka er.

Öllu mínu góða samstarfsfólki í Kölku vil ég færa mínar bestu þakkir og góðar kveðjur fyrir einstaka samheldni og frábært samstarf við úrlausn á erfiðum verkefnum. Ég þakka sveitarstjórnarfólki fyrir mjög gott samstarf og svo vil ég aftur þakka fyrir tækifærið að fá að taka þátt í miklu uppbyggingarverkefni hjá fyrirtækinu. Að endingu vil ég óska þess að Kalka sorpeyðingarstöð sf. og við, íbúar og eigendur þess, munum framvegis njóta góðs af því endurskipulagningarferli sem ráðist var í og skilaði þeirri góðu niðurstöðu sem raun ber vitni.

Bestu þakkir og kveðjur,

Jón Norðfjörð,
fyrrverandi framkvæmdastjóri.