Aðsent

Starfsmenn í leikskólum Grindavíkurbæjar vonsviknir með vinnubrögð meirihluta bæjarráðs
Fimmtudagur 25. júní 2020 kl. 14:05

Starfsmenn í leikskólum Grindavíkurbæjar vonsviknir með vinnubrögð meirihluta bæjarráðs

Sex tillögum af níu um bættar starfsaðstæður í leikskólum Grindavíkurbæjar hafnað í seinni áfanga verkefnisins. Tillögurnar voru unnar í samstarfi fræðsluyfirvalda og starfsfólks leikskólanna í á annað ár.

Starfsfólk leikskólanna í Grindavík harmar að bréf sem afhent var meirihlutanum á bæjarráðsfundi 10. júní síðastliðnum hafi ekki verið tekið formlega fyrir. Á fundinum sátu skólastjórnendur og trúnaðarmenn starfsmanna og afhentu þeir bréf frá öllu starfsfólki skólanna, þar sem farið er fram á að ákvörðun meirihlutans til tillagna um bætt starfsumhverfi í leikskóla verði endurskoðuð. Á fundinum var farið yfir tillögurnar og starfsfólki gefið tækifæri á að rökstyðja mikilvægi þess að bæta starfsaðstæður í leikskólum eins og lesa má í bréfinu hér að neðan.

Í fundargerðum um málið kemur eingöngu fram: „Farið yfir tillögur frá skólastjórnendum og málin rædd“ (Bæjarráðsfundur nr. 1550, 9. júní 2020). Ekkert um það að starfsfólk hafi afhent bréf eða afstaða tekin til beiðninnar í bréfinu. Það skal tekið fram að tillögurnar komu ekki eingöngu frá skólastjórnendum eins og fram kemur í fundargerðinni því eins og fram kom á fundinum og lesa má í bréfinu voru þessar metnaðarfullu tillögur unnar að beiðni bæjarráðs í samstarfi og góðri samvinnu starfsfólks leikskólanna og fræðsluyfirvalda síðastliðna 18 mánuði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir að í ljós kom að ekki var minnst á bréfið í fundargerð bæjarráðs, sem lesið var upp og afhent formlega á fundinum,  var beiðni send til bæjarstjóra um að taka það formlega fyrir og var þá fjallað um það á næsta fundi bæjarráðs á þennan hátt: „Erindi frá starfsfólki á leikskólanum Laut og heilsuleikskólanum Króki lagt fram“ (Bæjarráðsfundur nr. 1551, 16.06.2020). Enn ekkert um formlega afgreiðslu beiðninnar sem hljóðar svo: „ Við (starfsfólk leikskólanna) óskum eftir að bæjarráð endurskoði afstöðu sína til tillagna um bættar starfsaðstæður í leikskólum bæjarins og stuðli þannig að því að fólk horfi til leikskólans sem framtíðar starfsvettvangs svo og vettvangs til að mennta sig til og hækka þannig hlutfall faglærðra kennara í leikskólum bæjarins“.

Annar af fulltrúum meirihlutans spurði á fundinum, að þar sem um tillögur væri að ræða hvort við hefðum haldið að við fengjum þær allar samþykktar. Svarið er já, vegna þess að í öllu ferlinu sem tók 18 mánuði var mikill vilji og jákvæðni fyrir því að bæta starfsaðstæðurnar enn frekar hjá fræðslunefnd sem starfar í umboði meirihlutans og vorum því sannfærð um að það gilti einnig um alla kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Grindavíkur. Einnig hafði Sigurður Óli Þórleifsson forseti bæjarstjórnar skrifað eftirfarandi í áramótakveðju sinni á fésbókarsíðu Framsóknarflokksins: „Það var nýlega í fréttum að Reykjanesbær væri að vinna í að bæta starfsumhverfi leikskólakennara, en það verkefni hófst hér hjá okkur fyrir nokkru síðan, m.a. með að hafa skólana lokaða á milli jóla og nýars sem Reykjanesbær ætlar að taka upp hjá sér“. 

Við gerum okkur grein fyrir að um tillögur er að ræða en undrum okkur á að í ferlinu hafi aldrei komið mótmæli frá kjörnum fulltrúum í meirihlutanum sem hljóta að hafa verið upplýstir um vinnuna sem var í gangi allan þennan tíma. Í ferlinu voru tillögurnar endurskoðaðar að beiðni bæjarráðs og voru stjórnendur viljugir í að draga úr kostnaði tillagnanna sem tóku miklum breytingum frá upphaflegu tillögunum því ljóst var að um kostnaðaraukningu fyrir bæjarfélagið var að ræða.

Með vinsemd og virðingu,

Starfsfólk leikskólans Lautar

Starfsfólk Heilsuleikskólans Króks