Aðsent

Sjálfbær orkuframtíð og atvinnuuppbygging á Suðurnesjum
Föstudagur 21. maí 2021 kl. 07:30

Sjálfbær orkuframtíð og atvinnuuppbygging á Suðurnesjum

Ný Orkustefna til ársins 2050 var lögð fyrir Alþingi í byrjun þessa árs. Orkustefnan er framsýn og metnaðarfull þar sem sjálfbær orkuframtíð er meginstefið. Framtíðarsýnin kveður meðal annars á um að öll orkuframleiðsla, þar með talið varaaflsframleiðsla, verði af endurnýjanlegum uppruna í stað framleiðslu varaafls með díselolíu. Stefnt er að því að hér á landi verði markmiði um kolefnishlutleysi náð fyrir árið 2040 og við verðum óháð jarðefnaeldsneyti ekki síðar en árið 2050. Til þess að þetta verði að veruleika þarf að þróa markaði, nýja tækni en ekki síst þarf að beita frjórri hugsun og samvinnu. Þannig verða kerfi, tækni og fólk lykilbreytur til árangurs svo að vel til takist.

Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar og við sem þjóð stöndum afar vel að vígi þegar kemur að orkuframleiðslu í samræmi við þau gildi. Hins vegar skulum við hafa það hugfast að um öfluga keppinauta er að etja. Danir stefna hraðbyr að hreinum orkuskiptum og undirbúa nú byggingu nýrrar vindorkueyju til útflutnings á endurnýjanlegri raforku. Framkvæmdin hefur verið kynnt sem bjartasta von orkuskipta Danmerkur. Þegar lítil eftirspurn er fyrir raforku er stefnt að framleiðslu vetnis með rafgreiningu eða annarri loftslagsvænni orku sem nýta má til að knýja skip og stærri samgöngutæki.

Á meðan Danir, þjóð sem fátæk er af náttúrulegum auðlindum, undirbúa framtíð algjörlega óháða jarðefnaeldsneyti með beislun sólar og vindorku, er engin ástæða til annars en að ætla að Íslendingar geti sýnt mátt sinn í slíkri samkeppni.

Græn framtíð sameinar efnahagslega og umhverfislega hagsmuni. Tækifærin felast í nýrri aðferðarfræði og nýrri hugsun við nýtingu þeirra endurnýjanlegu orkugjafa sem við Íslendingar eigum gnægð af. Nýr orkusækinn atvinnuvegur gefur okkur færi á að hætta innflutningi á jarðefnaeldsneyti, eykur orkuöryggi okkar og skapar gjaldeyristekjur.

Þörfin fyrir vistvænt eldsneyti og tækifærin á Suðurnesjum

Til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þarf að leita fleiri vistvænna orkugjafa til að knýja stærri samgöngufarartæki þar sem rafmagn er ekki fýsilegur orkuberi. Framleiðsla vistvæns rafeldsneytis svo sem vetnis, ammoníaks, metanóls og metans er lykilþáttur í að orkuskipti í samgöngum verði að veruleika. Slík framleiðsla krefst mikillar orku sem við erum rík af. Þá kallar rafbílavæðingin á stóraukna framleiðslu á rafhlöðum. Markaðurinn kallar á nýja tækni og hraða þróun. Því er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir aukinni eftirspurn og tækifærum þar að lútandi.

Nýlega birtist frétt í viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem fjallað var um ákvörðun skipafélagsins Maersk um, að hætta að nota olíu á öll sín skip. Áform eru um að fyrsta „græna“ skipið verði sjósett eftir tvö ári, knúið rafmetanóli.

Eitt af meginsóknartækifærum vetnis er að gera iðnaðarhafnir nátengdar framleiðslustaðnum. Vetni, framleitt með rafgreiningu, gæti þá þjónað ýmsum greinum þar sem varmaorka og mikið hágæðasúrefni nýtist. Má þar til dæmis nefna seiða- og fiskeldi á landi. Við það skapast tækifæri til að auka hagkvæmnina við vetnisframleiðsluna. Helguvíkurhöfn, sem tengir Ísland við umheiminn, gegnir þar afar mikilvægu hlutverki með sinni staðsetningu. Orkuskiptin eru að knýja dyra í þungaflutningum á öllum vígstöðvum. Aukinn áhugi erlendis, bæði af hálfu fyrirtækja og erlendra stjórnvalda, er um samstarf á framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis og nýtingu á endurnýjanlegri orku sem styður við græna framtíð. Með vaxandi vitund almennings um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð verða fyrirtæki sem ætla sér að vera leiðandi á komandi árum að taka ábyrgð á þeim áhrifum sem starfsemi þeirra hefur og sýna í verki að sjálfbærni er höfð að leiðarljósi fyrir komandi kynslóðir.

Flugvélaframleiðendur horfa nú til vetnis sem orkugjafa fyrir flugvélar og vinnur bandaríska félagið Universal Hydrogen að lausn um þessar mundir. Til þess að alþjóðaflugvöllurinn haldi áfram að vera mikilvægur hlekkur í millilandatengingum eftir orkuskipti er deginum ljósara að tryggja þarf að fyrirliggjandi áhugi þeirra fyrirtækja sem hyggjast á græna eldsneytisvinnslu beinist að Suðurnesjum. Hér spretti þannig upp ný og græn orkutækifæri.

Þörfin fyrir Suðurnesjalínu 2

Ekkert af þessu er möguleiki án þess að byggðir séu hér upp nauðsynlegir og sterkir innviðir enda eru þeir lífæðar samfélagsins. Til þess að fyrirtæki líti á Suðurnesin sem raunhæfan og ákjósanlegan valkost sem taka beri alvarlega verður að vera tryggt að raforkuflutningskerfið byggist upp í takt við aðra mikilvæga innviði  eins og vegakerfi og fjarskipti. Aukin raforkunotkun á Suðurnesjum hefur leitt til þess að flutningskerfið er orðið verulega þungt lestað, svo mjög, að ástandið er farið að valda verulegu tjóni fyrir núverandi atvinnustarfsemi á svæðinu. Það skýtur skökku við að ekki sé tryggt afhendingaröryggi á Suðurnesjum þótt næg framleiðslugeta sé á svæðinu. Truflanir á Suðurnesjum geta valdið alvarlegum útslætti á höfuðborgarsvæðinu. Þá má benda á að komi til alvarlegrar bilunar á Suðurnesjalínu 1 þá getur tekið langan tíma að koma raforkukerfinu á Suðurnesjum aftur í eðlilegan rekstur með tilheyrandi röskun á samfélagslegri starfsemi eins og alþjóðaflugvellinum í Keflavík.

Það er spennandi framtíð sem blasir við í orkuskiptum á Íslandi. Suðurnesjamenn ættu því að grípa tækifærið samfélaginu og umhverfinu til heilla. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja hér afhendingaröryggi raforku til atvinnuuppbyggingar og fyrir samfélagið sjálft.

Um þetta mikilvæga mál munu komandi Alþingiskosningar meðal annars snúast.

Hanna Björg Konráðsdóttir,
varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.