Grindvíkingur fer yfir stöðu mála í Grindavík í tölvupósti til forsætisráðherra
Komið þið sæl Kristrún og Víðir.
Ég ákvað að hafa varamann ykkar í Suðurkjördæmi, Sverri Bergmann, með í cc en ég hef getað verið í sambandi við hann og hef tekið viðtal við, eins og þig Víðir. Kristrún, viðtalið við þig var eðli málsins skv. styttra á sínum tíma, þú ert jú ekki með tengingu við Suðurnes eða kjördæmið.
Ég get eiginlega ekki orða bundist en það vantaði ekki loforðin í kosningabaráttunni, ég virkilega hafði trú á ykkur og fylltist meiri trú eftir að hafa tekið viðtal við Víði í vetur. Mjög flott greiningarvinna þótt erfitt væri að lesa eitthvað út úr niðurstöðunum, sviðsmyndir á sviðsmyndir ofan…
Kristrún, það vantaði ekki að þú svaraðir mér þegar ég var að prófarkalesa aðsenda grein þína (í nafni Víðis ef ég man rétt.) Þú hvattir mig til að kjósa þig. Ég hreyfst af þér, hafði mikla trú á þér, þú hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum síðan þá, ekki svarað neinu…
Ríkisstjórnin skipti um tvo í Grindavíkurnefndinni en fyrri nefnd hafði staðið sig frábærlega, við vitum varla hverjir tóku við. Þið settuð Úlfar af, nýi lögreglustjórinn á Suðurnesjum benti í dag á Grindavíkurnefndina varðandi lokunarpóstana! Talandi um lokunarpósta, að þið skulið dæla tæpum 50 milljónum á mánuði í Öryggismiðstöðina og þetta er eins gagnslaust og hugsast getur! Í gær þurfti ég, IBÚI, að ljúga mig inn í bæinn, sagðist vera starfsmaður ónefnds fyrirtækis. Golfklúbbur Grindavíkur hefur aldrei haft annan eins fjölda í vinnu og í gær…
Það hefur engin hætta verið á ferðum í Grindavík síðan í ágúst í fyrra, þáverandi Grindavíkurnefnd var þá búin að láta laga sprungur og girða aðrar af. Ekki hefur fengist frekari fjárveiting en á sama tíma er eytt um 100 milljónum Á MÁNUÐI í Öryggismiðstöðina og sigmenn!!! Hvaða rugl er hér í gangi eiginlega?!?!
Víðir, þú lyftir heldur betur upp hendi þegar þið frambjóðendurnir á kosningafundinum með frambjóðendum allra flokka, voruð spurð hvort þið mynduð styðja við grindvísk fyrirtæki. Hvar er sá stuðningur í dag? Ekki nóg með að þið hafið hætt stuðningi, heldur valdið þið meira tjóni með því að loka í tvo sólarhringa fyrir ferðafólk að koma til Grindavíkur. Eldgosið byrjaði um fjögur um nóttina, þið hefðuð getað hleypt inn í bæinn á hádegi í síðasta lagi!
Vonandi sáuð þið fréttir í kvöld (í gærkvöldi), við mótmæltum við lokunarpóst að Bláa lóninu. Það hvernig talist getur eðlilegt, að ferðamenn geti lagt við Grindavíkurveg og gengið að gosinu, baðað sig á eftir í Bláa lóninu, en á sama tíma má ekki koma til Grindavíkur??? Það var pottþétt ekki meiri hætta í dag í Grindavík en á þriðjudag, eldgosið byrjaði þá nótt.
Finnst ykkur þetta bara vera rökrétt?
Og til að fullkomna bullið, þá virkilega lætur þú Kristrún, fljúga með þig í þyrlu til Grindavíkur í dag ásamt fríðu föruneyti, m.a erlendum gesti, á sama tíma og almennir ferðamenn máttu ekki koma… ef að þetta er ekki dómgreindarskortur af verstu sort, hvað er þetta þá?
Grindvíkingar hafa fengið nóg, mælirinn er fullur og ég er ansi hræddur um að ef þú Kristrún og ríkisstjórnin, farið ekki að láta í ykkur heyra og breytið um stefnu, sé að fara myndast ansi stór gjá sem er full af ormum.
Með von um að góð viðbrögð og þetta veki ykkur en þið fljótið sofandi að feigðarósi í dag!
Höfundur er íbúi í Grindavík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.