Af hverju eru engar Lóur á Suðurnesjunum?
Það er ekki að ósekju að Nýsköpunarsjóður landsbyggðarinnar sem heyrir undir Mennningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið, hafi tekið sér nafnið Lóa. Rétt eins og vorboðinn ljúfi, vill sjóðurinn tengja sig við eitthvað sem við fögnum með opnum örmum þegar hún kemur. Eitthvað sem boðar vöxt, von og upphaf bjartari tíma.
Lóan átti þannig að fljúga um allt land, en þegar við rýnum í opinber gögn síðustu ár, virðist sem hún fljúgi hreinlega fram hjá Suðurnesjum.
Kerfisbundin mynd á undanförnum árum
Á árunum 2023, 2024 og 2025 voru veittir samtals 73 styrkir úr sjóðnum til nýsköpunarverkefna og var fjöldi umsókna að meðaltali um 94 á ári, samkvæmt upplýsingum úr opinberum fréttatilkynningum stjórnvalda. Þó er hvergi að finna nákvæma sundurliðun á umsóknum eftir landshlutum, sem gerir gagnsæi og jafnræði torvelt í mati.
En með því að fara í gegnum fréttatilkynningar og fylgigögn má þó draga fram ákveðið munstur sem ekki er hægt að líta framhjá. Einungis tvö verkefni af Suðurnesjunum hafa hlotið stuðning úr Lóu á síðustu þremur árum af 73 samþykktum verkefnum. Á sama tíma voru 19 verkefni samþykkt á Norðurlandi eystra.
Rétt eins og á Norðurlandi eystra, býr um þriðjungur íbúa landsins utan höfuðborgarsvæðisins á Suðurnesjunum. Það er jafnframt eitt af þeim svæðum sem stendur hvað næst alvarlegum samfélagslegum og efnahagslegum áskorunum, sérstaklega í kjölfar náttúruvár og eldgosa undanfarið. En Suðurnesin virðast síendurtekið vera ósýnileg þegar kemur að því að fá opinberan stuðning til nýsköpunar. Á síðustu þremur árum hafa þannig einungis tæp þrjú prósent styrktra verkefna úr Lóu runnið til Suðurnesja á meðan um fjórðungur hafa farið á Norðuland eystra.
Hvað veldur?
Ástæðurnar fyrir þessari stöðu geta verið margþættar, en það sem stendur upp úr er skortur á gagnsæi og stuðningsinnviðum.
Í fyrsta lagi veita opinber gögn ekki upplýsingar um fjölda umsókna eftir landshlutum. Því er ómögulegt að leggja raunhæfan mælikvarða á árangur svæða eins og Suðurnesja. Í öðru lagi má spyrja hvort Suðurnesin séu yfirhöfuð skilgreind sem „landsbyggð“ í huga matsaðila? Ef dulin viðmið (hvort sem þau eru meðvituð eða ekki) gera ráð fyrir að Suðurnes séu of „nærri höfuðborginni“ eða „of þéttbýl“ til að teljast hluti af nýsköpunarumhverfi landsbyggðarinnar, þá er þar alvarlegt misvægi. Enda ætti sú staðreynd að svæðið sé nærri höfuðborgarsvæðinu ekki að draga úr réttmæti eða möguleikum aðila til að sækja í nýsköpunarsjóð landsbyggðarinnar.
En það sem verst er (og hér tala ég af reynslu) er hvernig þetta mynstur virkar letjandi fyrir þá sem vilja sækja í uppbyggingar- og nýsköpunarsjóði. Þegar frumkvöðlar á Suðurnesjum horfa á tölurnar og sjá að aðeins tvö verkefni af 73 hafa fengið styrk á þremur árum, þá spretta óhjákvæmilega fram spurningar eins og: Af hverju að standa í þessu? Af hverju að verja tíma í umsóknarferli, kostnað með ráðgjöfum, móta hugmynd og leggja sig fram, ef útkoman virðist fyrirfram ákveðin? Þessi tilfinning er hættuleg. Hún dregur úr virkni, áhuga og vexti nýsköpunarsamfélagsins.
Þögnin talar sínu máli
Ef lóan hverfur frá ákveðnum svæðum vekur það spurningar og ætti að ýta undir aðgerðir. Það sama gildir um stuðning til nýsköpunar. Enda má sá stuðningur ekki eingöngu snúast um eftirfylgni byggðastefnu, heldur um það hvernig við skilgreinum framtíð allra svæða á landsbyggðinni.
Ef stefna stjórnvalda er raunverulega að efla nýsköpun um land allt, þarf að (1) Birta samantekt um árlegar úthlutanir eftir landshlutum og hlutfall umsókna frá hverju svæði; (2) Efla umsóknargetu svæða sem eru að fá lægra hlutfall úr opinberum styrktarsjóðum, til dæmis með auknum námskeiðum og fræðslu fyrir frumkvöðla; (3) Setja sýnileg og gagnsæ jafnræðisviðmið við faglega úthlutun.
Suðurnesin eru kraftmikið svæði með auðugt frumkvöðlastarf, eldhuga og áskoranir sem kalla á nýjar lausnir og stuðning í verki. Til að nýsköpun þrífist þar með sama krafti og á öðrum svæðum landsins þarf markvissar aðgerðir til að efla umsóknargetu, styðja við tengslamyndun og tryggja að Suðurnesin standi jafnfætis öðrum svæðum þegar kemur að úthlutun opinbers fjármagns.
Ef við ætlum að tala um jöfnuð og sjálfbæra þróun í alvöru, þá verðum við að tryggja að Lóan lendi líka á Suðurnesjum.
Arnbjörn Ólafsson, framkvæmdastjóri