Bilakjarninn
Bilakjarninn

Aðsent

Af hverju virðist Bláa Lónið njóta forgangs umfram aðra hagsmunaaðila?
Fimmtudagur 17. júlí 2025 kl. 08:48

Af hverju virðist Bláa Lónið njóta forgangs umfram aðra hagsmunaaðila?

Kæru fulltrúar Lögreglunnar á Suðurnesjum!

Við viljum með þessu bréfi lýsa yfir djúpum áhyggjum okkar vegna þeirrar stöðu sem skapast hefur í kjölfar nýjustu eldgosanna á Sundhnúksgígaröðinni. Nú þegar stærsta sprungan nær yfir 2,4 km og ný sprunga hefur opnast vestan Fagradalsfjalls, eru svæði í kringum Grindavík lokuð fyrir almenningi og ferðaþjónustu í nafni öryggis.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það vekur sérstaka furðu að á sama tíma sem íbúar Grindavíkur og fyrirtæki í bænum þurfa að búa við víðtækar takmarkanir og óvissu, fær Bláa Lónið heimild til að starfrækja og taka á móti gestum án þess að skýrt hafi komið fram rökstuðningur fyrir því hvers vegna það svæði er talið öruggara en önnur.

Við teljum mikilvægt að opinberir aðilar skýri á hverju þessi ákvörðun byggir og hvaða sjónarmið gilda um að Bláa Lónið virðist ítrekað njóta forgangs umfram aðra hagsmunaaðila á svæðinu – þar á meðal íbúa Grindavíkur, sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sæta afdráttarlausum lokunum.

Það er óskiljanlegt hvernig hægt er að halda því fram að starfsemi Bláa Lónsins feli í sér minni áhættu en starfsemi skipulagðra ferða á öðrum svæðum sem ekki hafa verið skilgreind sem mikil hættusvæði samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands. Þessi mismunun sendir röng skilaboð og dregur úr trausti á ákvarðanatöku stjórnvalda þegar kemur að jafnræði og öryggi.

Við viljum með þessu formlega bréfi óska eftir skýrum svörum við eftirfarandi:

  1. Hvaða sértæku viðmið og rök voru notuð til að heimila Bláa Lóninu áframhaldandi starfsemi á sama tíma að öðrum aðillum er gert ómögulegt að starfa?

  2. Hvers vegna sömu viðmið eru ekki látin gilda jafnt um öll fyrirtæki og íbúa á svæðinu.

  3. Hvernig er tryggt að öryggi allra sé haft í fyrirrúmi óháð stærð eða vægi fyrirtækja.

Við viljum jafnframt árétta að það er okkur mikilvægt að fá þessi svör svo hægt sé að skilja af hverju íbúar Grindavíkur og aðrir aðilar þurfa að sæta strangari aðgerðum en Bláa Lónið, sem virðist fá að halda starfsemi sinni áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Við væntum tafarlausra útskýringa á þessum ákvörðunum og vonumst til að sjá rökstuddar upplýsingar sem sýna að jafnræði og gagnsæi ráði för í málsmeðferð ykkar.

Virðingarfyllst,
Guðni Kristinsson
Juan Carlos Suarez Leyva
Go ehf.