Mikil umferð á tjaldsvæði Grindvíkinga
„Ætli útlendingar séu ekki u.þ.b. 99% gesta á tjaldsvæðið, ég hvet alla Íslendinga til að kíkja til Grindavíkur, þar er frábær sundlaug og margir veitingarstaðir opnir og svo er einn besti golfvöllur landsins í Grindavík,“ segir Jóhann Árni Ólafsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja og tjaldsvæðis Grindavíkur.
Tjaldsvæðið opnaði í lok maí og fór betur af stað en gert var ráð fyrir og hefur verið stöðugur straumur í allt sumar.
„Í langflestum tilvikum er dvalið eina nótt sem gefur sterklega til greina að fólk sé annað hvort á leið í ferðalag um Ísland, eða sé að fara í flug daginn eftir. Auðvitað viljum við sjá fólk dvelja lengur í bænum og skoða allt sem fyrir augu ber en það er mín tilfinning að þessir útlendingar séu ekki að spá mikið í stöðunni í Grindavík. Sumir hafa spurt hvort hægt sé að sjá flæðandi hraun en flestir virðast einfaldlega vera að sækjast í gott tjaldsvæði til að tjalda til einnar nætur,“ sagði Jóhann.
Þetta viðtal við Jóhann var tekið degi áður en tólfta gosið hófst.
