Atnorth
Atnorth

Fréttir

Yfirlýsing frá bæjarráði Grindavíkur
Fimmtudagur 17. júlí 2025 kl. 16:04

Yfirlýsing frá bæjarráði Grindavíkur

Bæjarráð Grindavíkur fundaði í morgun um stöðuna sem uppi er í Grindavík og sendi í kjölfarið frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

Bæjarráð hvetur lögreglustjórann á Suðurnesjum til þess að endurskoða nú þegar ákvörðun sem tilkynnt var að kvöldi miðvikudagsins 16. júlí, um takmörkun á aðgengi að Grindavík.

Bæjarráð telur að í ákvörðuninni felist mikið ójafnræði gagnvart ferðaþjónustuaðilum í Grindavík, þar sem takmörkun á aðgengi tekur eingöngu til þéttbýlisins í Grindavík.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ekki verður með góðu móti séð á hvaða vísindalegum rökum ákvörðunin er byggð. Grindavík stafar engin ógn af hraunrennsli frá eldstöðvunum, sem eru langt frá bænum. Ekki virðist heldur vera tilefni til að hafa áhyggjur af loftgæðum í Grindavík, þar sem vindar blása gosmekkinum í aðrar áttir. Aflögun á jarðvegi í bænum mælist engin í þessum atburði og því ekki frekar tilefni til þess að takmarka aðgengi ferðamanna vegna hættu á sprungum heldur en raunin var fyrir eldgosið.

Bæjarráð hvetur lögreglustjóra til þess að taka ákvörðun sem fyrst um að aflétta takmörkunum á aðgengi að Grindavík, þannig að lágmarka megi það tjón sem hlýst af ákvörðuninni fyrir fyrirtæki sem berjast fyrir því að koma starfsemi í ferðaþjónustu í fullan gang, þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði vegna náttúruhamfara undanfarin misseri.