Ryksugan á fullu að veiða nornahár í Vatnaveröld Reykjanesbæjar
„Ryksugan er á fullu og full af nornahárum,“ sagði Hafsteinn Ingibergsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja Reykjanesbæjar en hann og starfsmenn Vatnaveraldar unnu í morgun við að þrífa upp nornahár í útisundlauginni og víða á útisvæðinu. Stórar flygsur voru víða í útilauginni og í heitu pottunum.
Sundgestir voru ekki ánægðir með þennan óboðna gest í lauginni og pottunum og fóru margir upp úr. Starfsfólk Vatnaveraldar var í óða önn að hreinsa nornahárin upp. Var tekin ákvörðun um að loka útisvæðinu.
Bíleigendur sáu þetta líka í morgun en hárin setjast á bílana þar sem þau sjást vel en einnig víðar í umhverfinu.
Á vísindavefnum segir: Nornahár er örþunnar glernálar sem myndast í eldgosum þegar kvika kemur upp úr gosopi og er í raun náttúruleg glerull. Ástæða þess er mikið gasstreymi sem teygir basíska kvikuna í örþunn hár sem falla til jarðar og velta fyrir vindi eftir yfirborðinu og hnoðast saman í vöndla.
Loftgæðasérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun Íslands mælir með því að fólk haldi sig innandyra og takmarki áreynslu, sérstaklega ef það er utandyra þar sem gasmengun mælist. Þá mælir hann ekki með því að börn séu látin sofa utandyra í vögnum.
Ungmenni í Vinnuskóla Reykjanesbæjar hafa verið send heim en þau eru í útivinnu víða í bæjarfélaginu.
Hafsteinn mundar ryksuguna. Að neðan má sjá nornahár á svölum eins íbúa í Reykjanesbæ.