Kvikugangurinn myndast meira til suðurs en nálgast ekki yfirborð
Jarðskjálftarnir í hrinunni sem núna stendur yfir við Svartsengi mælast flestir á um 4 til 6 km dýpi. Það bendir til þess að kvika er ekki að nálgast yfirborð á þessu stigi, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Þar kemur einnig fram að samkvæmt skjálftavirkni og GPS mælingum sem sýna aflögun á Sundhnúksgígaröðinni stækkar kvikugangurinn sem er að myndast meira til suðurs en til norðurs.
Samkvæmt GPS mælingum er aflögun lítil á svæðinu sem bendir til þess að kvikuhlaupið er ekki stórt enn sem komið er. Aflögunin er vaxandi og mælist bæði suður og norður af svæðinu þar sem skjálftavirknin hófst.