Aðsent

Samningur um samræmda móttöku flóttafólks í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 19. janúar 2023 kl. 06:57

Samningur um samræmda móttöku flóttafólks í Reykjanesbæ

Frétt Morgunblaðsins sem birtist þann 10. janúar 2023 hefur vakið athygli og spurningar komið fram frá íbúum Reykjanesbæjar í kjölfarið, sem eru skiljanlegar enda er fyrirsögnin, „Reykjanesbær tekur á móti 350 flóttamönnum“, villandi eins og málum er komið.

Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar vilja upplýsa bæjarbúa um hvernig staðan er í þessum málaflokki. Staðreyndin er sú að Reykjanesbær hefur verið eitt fárra sveitarfélaga landsins sem hefur verið með samning um samræmda móttöku flóttafólks. Verklag ríkisins í málefnum flóttafólks eru á þann veg gagnvart sveitarfélögum, að samningar eru gerðir við sveitarfélög eftir að einstaklingar eru komnir til landsins og skráðir til búsetu innan sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hefur enga stjórn á því hversu mikið flæði fólks er til sveitarfélagsins og fær ekki upplýsingar um við hverju megi búast. Sveitarfélög eru, lögum samkvæmt, skyldug til að veita öllum sem þar eru skráðir til heimilis lögbundna þjónustu. Því gefur auga leið að róðurinn þyngist verulega þegar ríkisvaldið gengur til samninga við leigusala í sveitarfélaginu um húsnæði fyrir flóttafólk án þess að eiga um það samráð við sveitarfélagið. Þessari staðreynd hafa bæjarfulltrúar ásamt velferðarráði Reykjanesbæjar flaggað ítrekað í gegnum árin í fjölmiðlum og í bókunum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Því er ljóst að með þessu fyrirkomulagi fellur kostnaður strax til þar sem fólk á flótta þarfnast margvíslegrar þjónustu frá sveitarfélaginu, eins og aðrir íbúar sem til okkar flytja, hvort sem um er að ræða félagslegan stuðning, framfærslu, skólavist eða leikskólapláss fyrir börn. Til að fá þennan kostnað endurgreiddan er gerður samningur við ríkið sem er sá samningur sem frétt Morgunblaðsins vísar til. Samningurinn tryggir endurgreiðslu kostnaðar vegna þeirra sem þegar eru búsettir í Reykjanesbæ. Sé samningur ekki gerður, fær sveitarfélagið engar greiðslur vegna veittrar þjónustu við þennan hóp. En það breytir því ekki að sveitarfélagið ber lagalega skyldu til að veita þjónustuna þar sem búseta er skráð í sveitarfélaginu.

Við höfum nú þegar tekið á móti þeim 350 einstaklingum í þjónustu sem kemur fram í umræddum samningi. Sveitarfélagið hefur veitt þeim lögbundna þjónustu frá komu þeirra til landsins, eins og því ber, og sækir nú endurgreiðslur til ríkisins með umræddum samningi. Ákvörðunin var því sú að skrifa undir stærri samning til að geta sótt endurgreiðslur til ríkisins vegna þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir en hinn valmöguleikinn hefði verið að sinna þessari lögbundnu þjónustu áfram en fá engar endurgreiðslur.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ítrekað lagt áherslu á að hér eru innviðir komnir að þolmörkum og að fleiri sveitarfélög verði að koma að verkefninu. Við viljum veita öllum okkar íbúum þjónustu og gera það vel. Af því viljum við ekki veita neinn afslátt og höldum þeim sjónarmiðum ítrekað á lofti við ráðherra og Vinnumálastofnun.

Sett hefur verið markmið í umræddum samningi, að kröfu Reykjanesbæjar, um að unnið verði að fækkun þeirra flóttamanna sem við tökum á móti í Reykjanesbæ á samningstímanum en markmiðið er að fjöldinn fari niður í 150 einstaklinga. Ljóst er að þetta er einungis mögulegt ef fleiri sveitarfélög gera sambærilega samninga. Verkefnið er orðið of stórt og umfangsmikið til að það beri sig með þátttöku fárra sveitarfélaga. Fjöldi fólks á flótta hefur sjaldan verið meiri og aðstæður í heiminum benda ekki til þess að það muni breytast í allra nánustu framtíð. Verkefnið snýst fyrst og fremst um mannúð og skjól fyrir fólk á flótta og samvinnu sveitarfélaga við ríkið. Ef fleiri sveitarfélög taka ekki þátt er það okkar mat að setja þurfi lög sem tryggja aukna þátttöku í samræmdri móttöku flóttafólks líkt og þekkist til dæmis á Norðurlöndunum. Það er að okkar mati sanngjörn leið.

Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbergur Reynisson (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga Jóhanna Oddsdóttir (D), Margrét Sanders (D), Sverrir Bergmann Magnússon (S) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y), bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.