Aðsent

Ný menntastefna Reykjanesbæjar
Föstudagur 24. september 2021 kl. 15:35

Ný menntastefna Reykjanesbæjar

Ný menntastefna Reykjanesbæjar var samþykkt í bæjarstjórn þriðjudaginn 21. september sl. Menntastefnan ber heitið Með opnum hug og gleði í hjarta og ber þess merki að mikil samvinna hafi verið á milli ritstjórnar, stýrihóps og þeirra fjölmörgu aðila sem að vinnunni komu í gegnum allt ferlið. Við ég færa þeim öllum kærar þakkir fyrir vinnu í þágu okkar allra. Markmið menntastefnunnar er að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel og að þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína með opnum hug og með gleði í hjarta.

Nemendur hafi trú á eigin getu

Í vinnunni voru kannanir lagðar fyrir börn, ungmenni og fullorðna með það fyrir augum að draga fram áherslur og forgangsatriði. Stýrihópurinn skipulagði einnig rýnisamtöl við börn á ólíkum aldri til að stefnan endurspegli raddir og skoðanir barnanna sjálfra. Þessi vinnubrögð eru til mikillar fyrirmyndar og niðurstöðurnar eru skýrar. Það er mikilvægt að nemendur taki með sér sjálfstraust, gleði, sjálfsvirðingu og þrautseigju við lok grunnskólagöngunnar. Til að það geti orðið þarf nemendum að líða vel, samband kennara og nemenda þarf að vera gott, bjóða þarf upp á fjölbreytta náms- og kennsluhætti og námið þarf að vekja áhuga og hafa tilgang. Þegar þessir þættir koma saman eflum við nemendur í því að hafa trú á eigin getu sem er gríðarlega mikilvægt til framtíðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Samvinna er lykillinn

Menntastefnan er skýrt dæmi um samvinnu sem skilar árangri. Við í Reykjanesbæ getum verið stolt af því að innan menntastofnana okkar er öflugt fagfólk sem hefur verið leiðandi í þróunarvinnu í menntamálum svo eftir því er tekið á landsvísu. Ég er fullviss um að með þessari sameiginlegu sýn og því faglega starfi sem fer fram í Reykjanesbæ mun okkur takast að ná því markmiði að skapa öllum börnum og ungmennum sem bestu aðstæður þar sem þeim líður vel og að þau stígi skrefin inn í framtíðina með opnum hug og með gleði í hjarta.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir

Varabæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar