HS Veitur
HS Veitur

Aðsent

Krafan er betri 
heilsugæsla
Fimmtudagur 23. desember 2021 kl. 06:45

Krafan er betri 
heilsugæsla

Á komandi ári verða sveitastjórnarkosningar í landinu. Það er því líklegt að á næst mánuðum verði meiri umræður um þá hagsmuni sem ný bæjarstjórn í Reykjanesbæ þarf að takast á við. Einnig munu koma fram á sjónarsviðið þeir einstaklingar sem vilja gefa kost á sér til setu í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili. 

Biðtíminn mælist í vikum

Heilbrigðismál eru sá málaflokkur sem brennur mest á skinni okkar Suðurnesjamanna. Mikil óánægja hefur verið með þjónustu heilsugæslunnar sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja veitir. Fáir læknar, langir biðlistar og bið eftir tíma hjá lækni mælist oft í vikum. Dæmi er um að einstaklingur hafi þurft að bíða eftir símatíma hjá lækni í fjórtán daga. Heilbrigðisstofnun hefur verið móðurskip heilbrigðisþjónustunnar í nærsamfélaginu á Suðurnesjum. En HSS hefur ekki náð að fylgja eftir kröfum íbúa um þá þjónustu sem kallað er eftir þrátt fyrir gott starfsfólk. Er þar fyrst og fremst langvarandi stjórnunarvanda að kenna.

Fjármagnið keyrir í burtu

Í dag fylgja framlög til heilsugæslunnar þeim sem nýtir sér þjónustuna. Þúsundir íbúa Reykjanesbæjar og Suðurnesja hafa valið sér þjónustu heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Með því má segja að milljónatugir framlaga til reksturs heilsugæslu í Reykjanesbæ keyri eftir Reykjanesbrautinni og styrki heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er því afar mikilvægt að þeir sem veljast til forystu Reykjanesbæjar hafi skýra sýn á eflingu heilsugæslunnar og geri það sem í þeirra valdi stendur að hér opni einkarekin heilsugæsla. Það er eina leiðin til að tryggja að hér starfi nægjanlegur fjöldi lækna sem veitt geta eðlilega þjónustu sem við íbúar gerum kröfu um. 

Styrkjum HSS

Það er síðan sérstakt verkefni að styrkja rekstur Heilbrigðisstofnunar. Ljúka við að koma öllu húsnæði stofnunarinnar í not. Bæta aðstöðu bráðamóttökunnar, heilsugæslunnar og starfsmanna. Halda áfram að bæta aðstöðu fyrir sérfræðilækna og fjölbreyttri heilbrigðisþjónustu sem er mikilvægur þjónustuþáttur stofnunar eins og HSS. Fjármál stofnunarinnar er verkefni sem við gerum kröfur á að þingmenn og löggjafinn sjái um að verði á pari við það sem gerist á sambærilegum stofnunum.

Það er af mörgu að taka

Það eru mörg mál sem mig langar að fjalla um í fleiri greinum á næstu vikum og mánuðum. Þar mun ég halda áfram að kynna mínar áherslur og áhugamál sem gera samfélagið okkar í Reykjanesbæ betra. Hæfileg endurnýjun bæjarfulltrúa í næstu kosningum er eðlileg og það er kallað eftir því.

Ég heiti Eiður Ævarsson, er giftur þriggja barna faðir og starfa sem rafeindavirki. Ég hyggst gefa kost á mér í eitt af efstu sætum á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningirnar 14. maí á næsta ári.