Lagardere
Lagardere

Aðsent

Hraðakstur og tillitssemi við samborgarana
Föstudagur 13. janúar 2023 kl. 07:57

Hraðakstur og tillitssemi við samborgarana

Ég er einn af íbúunum í Pósthússtræti 5 hér í Reykjanesbæ. Frá því ég flutti hingað fyrir nokkrum mánuðum hef ég tekið eftir því að Bakkastígurinn, sem er gatan sem liggur meðfram sjónum frá höfninni í Keflavík og alveg að Hafnarbrautinni sem liggur svo að höfninni í Njarðvík, er töluvert mikið notuð af alls kyns farartækjum. 

Ég sendi erindi á yfirmenn Reykjanesbæjar í lok júlí 2022 og spurði hvort ekki væri hægt að setja upp hraðahindranir og lækka hámarkshraða á þessari götu. Hámarkshraðinn er skráður 50 km í dag en ég hef nokkrum sinnum mælt hraða á bílum alveg upp undir 100 km. hraða með einföldu appi í símanum sem maður notar t.d. við íþróttaæfingar. 

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

En svörin voru allskonar sem ég fékk í samskiptum við yfirmennina sem ég sendi erindið á, og auk þess talaði ég við aðila í bæjarstjórninni sem voru í þeirri nefnd sem málið varðar og hélt í einfeldni minni að það myndi allavega verða tekið fyrir og rætt. Ég hef lesið allar fundargerðirnar frá því ég sendi þessi erindi í lok júlí 2022 en ekki séð minnst á málið í fundargerðunum. 

Ég er nefnilega á þeirri skoðun að starfsfólk bæjarins og kjörnir fulltrúar eru til að þjónusta okkur bæjarbúana en ekki öfugt. Bara svo því sé haldið til haga hvaðan atvinnan þeirra og launin þeirra koma, já einmitt, frá íbúum Reykjanesbæjar.

Nú er verið að byggja hús hér við hliðina, nr. 7 við Pósthússtræti, og þar er búið að setja meðfram veginum vinnupalla sem munu hækka upp eftir því sem verkinu miðar. Einföld vírgirðing er það eina sem skilur vinnupallana frá veginum. Og meðfram sjónum er gangstígur sem fólk notar mjög mikið. Ég hef oft velt því fyrir mér ef einhver af þessum bílum sem keyra þarna á ríflegum hámarkshraða myndu nú missa stjórn á aðstæðum og annað hvort rekast á grindverkið og keyra niður vinnupallana eða hinum megin, á gangstígnum, að keyra á fólk sem á þar leið um. 

Svo er aðkoman að bílakjallara hjá okkur í Pósthússtræti 5 þarna inn frá Bakkastígnum og ég veit að það er gert ráð fyrir sams konar innkeyrslu frá Bakkastíg inn í bílakjallarana á húsunum sem eru í byggingu Pósthússtræti 7 og 9. Svo maður tali nú ekki um aðstöðuna hjá HS veitum og öðrum fyrirtækjum hérna ofar við Bakkastíginn þegar keyrt er í gegnum þeirra vinnusvæði og hefur skapað þeim óþægindi í langan tíma.

Mín tillaga var á sínum tíma að þrengja aðkomuna að þessu svæði, t.d. beint fyrir neðan húsið við Pósthússtræti nr. 1 með þrengingum og sikk sakk akstri á milli þeirra þrenginga og svipaðar þrengingar settar á götuna allt að gatnamótum Bakkastígs og Hafnarbrautar. Setja þarna 30 km. hámarkshraða og þrengingar sikk sakk og tryggja öryggi þeirra sem þarna vinna og búa.

Ég hef séð stóra trukka koma þarna á fleygiferð með aftanívagna og það á mikilli ferð og lætin í samræmi við það. Ég hef líka séð stóra bíla keyra hérna framhjá á 30 km hraða og það heyrist ekki í þeim. Rútubílar galtómir fara hérna reglulega um. Finnst eins og bílstjórar séu að stytta sér leið, sem væri í lagi ef þeir tækju bara tillit til að þeir eru ekki einir í heiminum og keyrðu á hóflegum hraða þarna um.

Mikið væri nú gott ef bæjaryfirvöld tækju á þessu og settu upp hraðatakmarkanir og lækkuðu hámarkshraðan þarna í 30 km á þessu svæði. 

Hugsið um það, að það eru menn að vinna þarna næstu árin við nýbyggingar á þessu svæði og þeir eru í hættu á hverjum degi og þeir sem eru að ganga þarna á gangstéttinni og oft með barnakerrur og -vagna eru í hættu líka, enda gangstéttin í mjórri kantinum og við hliðina á gangstígnum eru þverhníptir klettar niður að sjó.

Ég óska eftir því að starfsmenn Reykjanesbæjar bretti nú upp ermarnar og komi þessu verki í framkvæmd áður en slys verða á þessum vegakafla. Þessi mál hafa verið rædd hér á húsfundi þar sem íbúarnir eru allir sammála um að aðgerða sé þörf nú þegar.

Reykjanesbæ 6. janúar 2023.
Nýárskveðja,
Elías Jóhannsson.