Rétturinn
Rétturinn

Aðsent

Heimanámsþjálfun – námsvitund
Föstudagur 16. október 2020 kl. 12:32

Heimanámsþjálfun – námsvitund

Ég kynntist hugtakinu námsvitund fyrir tíu árum síðan þegar ég hóf að aðstoða nemendur við heimanámsþjálfun. Á þeim tíma var mikil umræða um heimanám og hvort það ætti yfir höfuð rétt á sér. Margir kennarar og jafnvel heilu skólarnir á alþjóðlegum vettvangi, sem og hérlendis, höfðu tekið upp eða voru að íhuga að taka það upp að „hafa ekki heimanám“. Frekar villandi umræða og oft birt í engu samhengi við forsögu og staðreyndir. Ég mun fjalla sérstaklega um þennan anga þessa viðfangsefnis síðar.   

Með lausnamiðaðri nálgun minni og pælingum um hvernig ég gæti náð tökum á eigin námi sem unglingur í grunnskóla var ég farin að feta veg námsvitundar án þess að gera mér grein fyrir því. Orðið námsvitund er þýðing á enska orðinu Metacognition. Á ensku þýðir orðið hugsun um eigin hugsun.

Í hugtakinu felst einmitt ferlið að skipuleggja, fylgjast með og meta eigin skilning og frammistöðu. Þegar ég rýni í orð með nemendum mínum byrja ég á því að búta það niður í orðhluta: nám-s-vit-und. Orðið vitund merkir: „Það að vita um eitthvað“. Í þessu tilfelli það að vita um nám. Í orðinu námsvitund felst að vita hvernig við lærum. Í hugtakinu námsvitund felst m.a. sú hugsun að einstaklingur læri að læra, jafnframt því að hann skilji hvernig hann lærir best og nær árangri. Sem sagt, hvernig námsmaður er ég? Það eru því miður alltof margir nemendur sem geta ekki svarað þessari spurningu. Í stað þess að þeir hafi stjórn á eigin námi og hvernig þeir tileinka sér hæfni og þekkingu, þá er eins og þeir vaði um í stjórnleysi og/eða vonleysi gagnvart námi sínu, trúi því jafnvel að þeir geti alls ekki lært. Hafi jafnvel tekið þetta ástand í sátt og gefist upp. Mín reynsla er sú að ALLIR GETA LÆRT! Í þeim tilfellum þar sem vandi er kominn upp heyri ég foreldra/forráðamenn segja: „Barnið mitt gerir ekki mikið í skólanum og kemur með mikið af óloknum verkefnum heim (oftast í formi heimavinnu)“. Sömuleiðis heyri ég kennara segja: „Nemandinn leysir ekki verkefnin sín í tímanum/tekur ekki þátt/er vanvirkur, hvað á ég að gera í þessu?,“ og senda ólokin verkefni heim. Ég hef verið í þessari stöðu sem foreldri og ég er í þessari stöðu sem kennari. Í slíkum aðstæðum líður barninu ekki vel og skiljanlega spyrjum við okkur sjálf: „Hvað er til ráða?“ Með þessum skrifum mínum er ég einmitt að leita svara við þessari spurningu!

Í mínu hlutverki sem heimanámsþjálfi byrja ég á því að kynna hugtakið námsvitund til sögunnar eins og ég hef gert hér á undan. Í framhaldi legg ég fyrir nemandann spurningar á borð við: „Hvernig námsmaður ert þú? Hvernig finnst þér best að læra? Hvar finnst þér best að læra? Hvaða aðferðum beitir þú til þess að ná árangri í námi? Hvar liggur áhugasvið þitt?“ Í þessu felst greinandi vinna til þess að kanna hvar nemandinn er staddur í eigin þekkingu á sinni námsvitund.

Til þess að tileinka sér hæfni og þekkingu, á hvaða sviði sem er, hlýtur sú frumforsenda að þurfa að vera til staðar að einstaklingur skilji hvað þarf að búa að baki svo það sé einmitt hægt að þjálfa upp þá hæfni og/eða tileinka sér þekkingu. Það á alveg jafnt við um að stunda nám, eins og að æfa taekwondo, spila á fiðlu, lyfta lóðum, elda mat o.s.frv.

Í hugtakinu námsvitund býr margt að baki, eins og til dæmis hugtakið námstækni sem margir kannast frekar við og fleiri verkfæri sem nýtast þegar á að tileinka sér nám. Þekking á eigin námsvitund er mikilvæg til þess að ná árangri í námi. Rannsóknir sýna að þeir nemendur sem hafa sterka námsvitund þeim vegnar betur í námi (Scholarly Articles for Research on Metacognition).

Fyrstu skrefin geta falist í því að kynna hugtakið fyrir barni sínu og í framhaldi kanna hugmyndir barnsins um sjálfan sig sem námsmann.

Í næsta pistli mun ég fjalla um hugtakið námstækni.

Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.