bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Get ég haft áhrif með breytingum
Föstudagur 21. febrúar 2020 kl. 10:35

Get ég haft áhrif með breytingum

Una Emilsdóttir læknir á Landspítalanum heimsótti foreldra í Fjölbrautaskólaskóla Suðurnesja og hélt hugvekju um heilbrigði. Hún fræddi foreldra um tengingu lífsstíls og þróun sjúkdóma og ræddi mikilvægi þess að tileinka okkur rétt hugarfar gagnvart líkama okkar. Fjallaði um ónæmiskerfið og tengingu þess við krabbamein, fór yfir faldar hættur í nærumhverfi okkar, t.d í matvælum og snyrtivörum, og mikilvægi þarmaflórunnar. Við erum ekki bara það sem við borðum, heldur einnig það sem við berum á okkur og það sem við öndum að okkur. Una segir að hver og einn geti tekið ábyrga afstöðu varðandi mataræði og nærumhverfi og öll getum við hjálpast að við að skapa heilsueflandi umhverfi og gott samfélag. Það er margt sem getur haft áhrif á okkar heilsu og það sem gerir okkur veik er samspil erfða og umhverfis. Fólk tekur misgóðar ákvarðanir með sína heilsu en mikilvægt er að hafa þekkingu á því hvað getur haft áhrif á börnin og okkur sjálf. Hvar eru þessir áhættuþættir í umhverfinu sem hafa áhrif á okkar heilsu? Þekkjum við öll skaðleg efni í matvöru og snyrtivörum? Líklega ekki en mikilvægt er að stefna alltaf á að versla það sem er hollast fyrir okkur og vera tortryggin á allt sem við verslum. Sykur er mikið í umræðunni og sumir vilja meina að hann sé eiturefni en aðrir segja að hann sé óþarfur og að við getum fundið önnur sætuefni í mat. Sykur getur haft neikvæð áhrif á virkni ónæmiskerfisins og þar með eðlilega líkamsstarfsemi. Sem dæmi minnkar skilvirkni ónæmiskerfisins töluvert í allt að nokkrar klukkustundir eftir að einstaklingur innbyrðir eina kókdós (9–10 sykurmola). En ónæmiskerfið er mikilvægt til að verja okkur gegn utanaðkomandi bakteríum, veirum og sníkjudýrum svo eitthvað sé nefnt – en ekki síður ver það okkur gegn „gölluðum“ frumum sem starfa óeðlilega og gætu átt hættu á að þróast í illkynja frumur. 

Margir orkudrykkir eru núna á markaðinum og allir þessi litir og fallegt útlit á dósunum öskrar á okkur að kaupa drykk en stöldrum við og verum tortryggin, sum efnanna hafa kannski ekki verið áhættumetin, skoðum innihaldslýsingarnar vel, það gætu verið efni í drykkjunum sem samsett geta myndað efni sem geta haft krabbameinsvaldandi áhrif. Erum við kannski að skaða okkur með drykkjunum, gæti það haft áhrif síðar meir á okkar heilsu að neyta þessara drykkja?

Mikilvægt er að allir hafi gagnrýna hugsun, þegar að kemur að öllu vöruvali. Það er ekki eðlilegt að skipta ógagnrýnið út náttúrulegri fæðu fyrir unna matvöru sem er búin til í verksmiðju og samsett úr fjöldanum öllum af efnum sem urðu til á tilraunastofu, t.d. borða bara orkustykki í millimál í stað ávaxta sem vaxa á trjánum. Reynum eftir allra bestu getu að borða sem mest af matvælum sem hafa góð og uppbyggjandi áhrif á líkama okkur, þ.e.a.s. mat sem kemur upp úr jörðinni, vex á trjánum, kemur upp úr sjónum o.s.frv. 

Anna Sigríður Jóhannesdóttir,

aðalmaður í lýðheilsuráði,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.