bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Fjársvelt Suðurnes
Föstudagur 28. febrúar 2020 kl. 07:33

Fjársvelt Suðurnes

Lengi höfum við séð fréttir af fjársveltum Suðurnesjum. Heimamenn hafa jafn lengi velt fyrir sér af hverju Suðurnesin séu frábrugðin öðrum landsvæðum þegar kemur að stuðningi, fjárlögum og hreinlega áhuga ríkisstjórnar. 

Ein af þeim stofnunum sem hafa orðið hvað mest fyrir barðinu á fjársveltinu er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Bæjarstjórn Reykjanesbæjar, ásamt hinum bæjarstjórnunum og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, hefur ítrekað bent á umræddan mismun og sýnt fram á hann með rökstuðningi. Við höfum hitt ráðherra, þingmenn og í raun alla þá sem hafa viljað hlusta á okkur. 

Afleiðingarnar: Fjárframlög 2020 sýna hækkun til heilsugæslusviðs HSS um 10,4% milli ára. En hvað þýðir þetta? 

Framlög til hvers íbúa Suðurnesja sem tengd eru heilsugæslu eru þau lægstu á landinu eða 71 þúsund á hvern íbúa. Íbúar á Norðurlandi fá næstlægstu framlögin sem eru 102 þúsund á hvern íbúa. Suðurnesjamenn fá því árið 2020, þrátt fyrir 10,4% hækkun milli ára, ennþá langlægstu framlögin til heilsugæslu á landinu eða 31 þúsund lægra en næsta stofnun. Ríkisstjórnin er kannski eitthvað að taka við sér en þrátt fyrir þessa hækkun erum við ennþá að fá langminnst jafnvel þó að Lýðheilsuvísar Landlæknis sýni að íbúarnir okkar þurfi mun meiri og ítarlegri þjónustu. 

Suðurnesjamönnum hefur fjölgað um 30,8% frá árinu 2013. Þetta eru 6.524 íbúar á sex árum sem er fjölgun um næstum því um eina Vestfirði (7.084 íbúar). 

Staðan í dag er sú að 2.000 Suðurnesjamenn hafa þegar skráð sig á aðra heilsugæslustöð en á HSS. Það sem þetta mun þýða er að tekjur sem hefðu komið til HSS tengt þessum aðilum fara til nýju heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið okkar hefur hreinlega gefist upp og leitað annað. 

Af hverju? Er það vegna þess að HSS þarf hærri fjárlög til að fjölga læknum sem vinna í dagvinnu? Það er svakalegt verkefni að sinna 50–100 manns á hverri vakt í loftlausri biðstofu og greinilegt er að íbúunum okkar finnst það ekki vera gæðarík þjónusta. 

Það þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum við stofnunina og borga þeim betur en HSS borgar lægstu laun hjúkrunarfræðinga á landinu. Þrátt fyrir alla þessa fjölgun íbúa hefur mönnun hjúkrunarfræðinga í dagvinnu á bráðamóttöku ekki aukist undanfarin sextán ár. Bætt hefur verið við einum sjúkraliða sem ber að fagna en aukningin er allt of lítil miðað við gífurlega aukningu í þjónustuþörf.  

Hvar liggur ábyrgðin gagnvart heilbrigðisstofnunum sveitarfélaga? Hvað getum við gert meira til þess að á okkur sé hlustað og að við fáum það sem okkur ber miðað við íbúafjölda?

Eigum við að gefast upp og skrá okkur öll á höfuðborgarsvæðið?

Er vísvitandi verið að svelta HSS til þess að hægt sé að loka stofnuninni? 

Það þarf að ráðast í meiriháttar aðgerðir strax. Ef ekki þá veslast HSS upp og deyr og við förum öll saman, 27.000 manns, að leita okkur eðlilegrar heilbrigðisþjónustu til Reykjavíkur. 

Á holóttri Reykjanesbrautinni ...


Guðný Birna Guðmundsdóttir,
bæjarfulltrúi og fyrrverandi stafsmaður HSS.