Nivea
Nivea

Pistlar

Vorboðinn
Föstudagur 17. mars 2023 kl. 06:13

Vorboðinn

Þó svo að veðrið síðustu daga bendi ekki beint til þess þá er heldur betur að vora. Létt geggjun að segja þetta þegar hvöss norðanáttin lemur á manni og frostið er nálægt tveggja stafa tölu! Fyrsti alvöru vorboðinn í mínum bókum er Nettómótið í körfubolta sem fer fram í byrjun mars. Njarðvíkingar og Keflvíkingar geta verið afar stoltir af þeim magnaða viðburði þar sem þúsundir manna sækja okkur heim á eitt flottasta íþróttamót landsins. Seinni vorboðinn að mínu mati er úrslitakeppnin í körfunni. Núna eru rétt rúmlega tvær vikur í að hún hefjist og fáeinir deildarleikir eru eftir. Endaspretturinn í deildinni verður mikilvægur og spennandi enda öll liðin okkar hérna í bæjarfélaginu í toppbaráttu. Karlalið Njarðvíkur er í öðru sæti, kvennaliðið í því fjórða og þá tróna Keflavíkurkonur á toppnum sem stendur. Þá er karlalið Keflavíkur í þriðja sæti þrátt fyrir að einhverjir tali eins og liðið sé í fallsæti. Þarna þurfa menn heldur betur á stuðningi að halda!

Á bak við öll þessi lið starfar her sjálfboðaliða sem heldur betur gerir kraftaverk enda rekstur deildanna afar krefjandi. Núna þegar styttist í annan enda tímabilsins þá treysta liðin á stuðningsmenn sína sem aldrei fyrr. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk stígi upp úr sófanum og mæti á völlinn enda hvergi betra að vera á þessum árstíma. Liðin þurfa á stuðningi ykkar að halda og hver einasta króna skiptir máli. Nú hafa t.d. grillin verið dregin fram og því hægt að sleppa að elda og gæða sér á gómsætum hamborgara og drekka svo í sig stemmninguna á vellinum. Grillaður börger frá einhverju 80’s legend, klikkar ekki. Mikið fjör er núna framundan og það er alls ekki sjálfgefið að halda úti fjórum frábærum liðum í bæjarfélaginu og þá er ég bara að tala um körfuna. Slíkt kostar blóð svita og tár. Það verður bjartara og mun léttara yfir öllu þegar úrslitakeppnin í körfunni nálgast og skemmtilegasti tími ársins að margra mati. Ætla því að hvetja fólk til þess að fjölmenna á völlinn, sýna stuðning sinn í verki og njóta leiksins. Reykjanesbær er Mekka körfuboltans, Njarðvík kvenna eru Íslandsmeistarar og við viljum fleiri titla hingað í vor. Möguleikarnir eru til staðar og það eru mun meiri líkur á góðu gengi þegar húsin eru smekkfull og stemmningin góð. Þetta starf er langt frá því að vera auðvelt, sjáum bara stórveldið KR sem spilar í 1. deild á næsta tímabili með bæði sín lið. Eflaust hefur hlakkað í mörgum hérna fyrir sunnan en manni finnst það í raun bara sorglegt. Hlutirnir gerast ekki að sjálfu sér og allt kostar þetta mikla vinnu, stuðningsmenn eru mikilvægasti hlekkurinn.

Public deli
Public deli

Upp með sokkana,
allir á völlinn!