Bygg
Bygg

Pistlar

Elsku mamma
Föstudagur 9. maí 2025 kl. 06:30

Elsku mamma

Þar sem mæðradagurinn er á næsta leiti kom upp í huga mér sú minning þegar dóttir mín horfði á mig skælbrosandi og sagði: „Mamma, ég elska pabba svo mikið! Hann er bestur“. Þetta var rétt eftir jólin sem er kannski sá árstími sem mömmur eru hvað þreyttastar og mér varð hugsað til þín. Ég man sjálf eftir að hafa hugsað þetta þegar ég var lítil, „pabbi er svo miklu skemmtilegri en mamma, hún er svo stressuð og þreytt“. Nú er ég stressuð og þreytt. En það sem blessuð börnin sjá ekki er hversu yfirgripsmikið mömmuhlutverkið er. Hvort sem maður á eitt, tvö eða tíu börn. Að vera mamma er nefnilega 190% staða, 24/7.

Að vera mamma er að geta gert þúsund hluti og helst alla í einu. Hún þarf alltaf að vera á varðbergi yfir líkamlegri og andlegri heilsu barna sinna; fylgjast með, spyrja þau um líðan þeirra, fá ráð frá öðrum, panta hjá lækni, tannlækni, augnlækni, hjartalækni, húðlækni og í ungbarnaverndina, muna eftir tímanum og mæta. Svo skipuleggur mamma ferðalög, upplifanir, pantar í leikhús, pakkar í töskur, kaupir sólarvörn og sandala og bakar. Hún kaupir líka afmælis- og jólagjafir fyrir börnin, frænkur, frændur, ömmur og afa, skógjafirnar þrettán, samveru- og nammidagatölin og jólapeysurnar. Hún verður að muna eftir að taka gömul nestisbox með mygluðu brauði upp úr skólatöskunum og henda gömlum og grautsúrum íþróttafötum í þvott en fyrst þurfa þau að liggja í rodaloni.

Að vera mamma er líka að veita ást og umhyggju, jafnvel þó að hún eigi lítið eftir. Vaka með nýfæddu barni margar nætur í röð, fylgjast með því að barnið þyngist nógu vel, passa hvað barnið fær að borða, passa upp á næringu og nægan vökva. Hún kaupir meðal, gefur meðal, kaupir vítamín, góðgerla, lýsi, býr til hollustugrauta, finnur uppskriftir, les utan á pakkningarnar og frystir. Mamma passar líka að allir eigi ný föt, leikskólaföt, útiföt, inniföt, sundföt, jólaföt, náttföt, sokka og nærbuxur, og tekur gömlu fötin úr skápunum svo þeir fyllist ekki. Hún greiðir hár, pantar í klippingu, klippir neglur, baðar og burstar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hún þarf að vita hvar allt er því yfirleitt er hún spurð áður en nokkur byrjar að leita og hún þarf oftar en ekki að hafa svör á reiðum höndum þegar spurningar vakna í litlum kollum um allt á milli himins og jarðar. Mamma vill líka að heimilið sé fallegur staður fyrir fjölskylduna svo hún innréttar, skoðar á netinu, kaupir leikföng, mottur, púða, sængurver, velur liti og gardínur. Og talandi um heimilið þá verður mamma stundum svona eins og húsgagn sem allir vilja hafa á sínum stað, það er bara þarna, alltaf, og enginn getur lifað án þess.

Elsku mamma mín, ég vil að þú vitir að nú skil ég. Og þó þér líði oft enn eins og húsgagninu sem enginn kann að meta þá veit ég núna hvað það er að vera mamma og ég á aldrei eftir að geta þakkað þér nóg fyrir allt.