Flugger
Flugger

Pistlar

Vertíð í slippnum í Njarðvík
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 21. júní 2024 kl. 06:07

Vertíð í slippnum í Njarðvík

Þegar ein vertíð er búinn tekur önnur við – og núna er það strandveiðivertíðin eins og fram hefur komið. Það er líka vertíð hjá fólkinu sem starfar í slippnum í Njarðvík því núna er vægast sagt ansi margir bátar komnir þar upp.

Myndin sem fylgir þessum pistli sýnir reyndar ekki bátana sem eru vinstra megin, sem sé bak við gistiheimilið en það er ansi mikið um stóra báta sem eru komnir í slippinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við getum byrjað á vorboðanum sem kemur árlega í slippinn í Njarðvík, Steinunn SH sem er lengst til hægri á myndinni. Þessi bátur kemur árlega en núna á að hreinsa bátinn, mála hann allan og eitthvað fleira.

Fremst á myndinni má sjá tvo báta sem eru systurbátar, þetta eru Faxaborg SH og Guðbjörg GK. Þessir tveir hafa verið í slippnum í Njarðvík í töluverðan tíma. Reyndar er Guðbjörg GK skráð núna undir nafninu Oddbergur GK 22, þessi bátur landaði síðast í júlí árið 2019. Faxaborg SH hefur verið lengur frá veiðum, því báturinn landaði síðast í apríl árið 2017.

Báðir þessir bátar komu til landsins rétt eftir aldamótin og þeir voru alls níu sem komu. Þeir voru kallaðir Kínabátarnir enda voru þeir allir smíðaðir í Kína. Bátarnir sem komu hétu Sæljón RE, Vestri BA, Garðar BA, Sigurbjörg ST, Ólafur GK, Eyvindur KE, Rúna RE, Ársæll Sigurðsson HF og Ýmir BA.

Saga sumra af þessum bátum var stutt, til dæmis fór Ólafur GK aldrei til veiða og Eyvindur KE fór heldur aldrei til veiða og lentu eigendur þessara báta í töluverðu basli með bátana þegar þeir komu til landsins, enda var glussakerfi flestra þeirra ónýtt og þurfti að skipta um það allt í bátunum. Tók langan tíma að gera bátanna þannig að þeir yrðu sjóklárir. Fyrsti báturinn sem var klár af þeim var Vestri BA en þessi bátur heitir í dag Siggi Bjarna GK.

Annar Kínabátanna á myndinni, Guðbjörg GK, var fyrsti báturinn af þessum Kínabátum sem var byggt yfir en þá hét hann Ársæll Sigurðsson HF og í raun var hann eini báturinn af þessum níu sem ekki var hannaður fyrir tog og dragnótaveiðar. Hinir allir voru hannaðir sem dragnóta- og trollbátar.

Hinn, Faxaborg SH, hét fyrst Garðar BA og var hann með því nafni til 2003 þegar að hann fékk nafnið Sólborg RE. Hann fékk nafnið Faxaborg SH árið 2014 og var þá búið að byggja yfir bátinn og breyta honum úr dragnótabáti yfir í línubát.

Eins og segir þá voru bátarnir níu sem komu til landsins en núna eru fjórir hérna á Íslandi; Gunnar Bjarnason SH og Matthías SH á Snæfellsnesi og Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK í Sandgerði. Gunnar Bjarnason SH hét fyrst Rúna RE, Matthías SH hét fyrst Vestri BA, Benni Sæm GK hét fyrst Sæljón RE og Siggi Bjarna GK hét fyrst Ýmir BA.

Bak við þessa tvo báta er báturinn með gulu brúnna, það er Magnús SH, en hann er gerður út frá Rifi. Hann var smíðaður á Akureyri árið 1974 og hefur aldrei verið í útgerð frá Suðurnesjum en eigandinn er Skarðsvík ehf. Það fyrirtæki gerði út mjög aflasæla báta í allmörg ár sem hétu Skarðsvík SH, bátar undir því nafni voru mikil aflaskip bæði á loðnu og netum – og það má geta þess að Sighvatur GK, sem Vísir ehf. í Grindavík á og gerir út, hét eitt sinn Skarðsvík SH.

Við hliðina á Magnúsi SH er Sigurfari GK en þessi bátur var líka smíðaður í Kína eins og þessir níu Kínabátar, hann kom til landsins árið 2001 og hét þá Happasæll KE. Sigurfaranafnið fékk báturinn árið 2020 og verður báturinn líklega í slippnum í allt sumar því það á að taka upp gírinn í bátnum og til þess að það sé hægt þá þarf að skera gat á síðuna ásamt því að hreinsa allan bátinn og heilmála.

Svo það er alveg óhætt að segja að það sé vertíð í slippnum í Njarðvík.