Pistlar

Verðmætamat
Föstudagur 25. nóvember 2022 kl. 06:52

Verðmætamat

Mig rak í rogastans í vikunni þegar ég las viðtal í einum af knattspyrnumiðlunum við einn af eftirlætis sonum Keflavíkur. Kappinn heldur því blákalt fram að Keflavík einfaldlega hafi ekki næg fjárráð til að geta keppt meðal þeirra bestu í Bestu. Hann lýsir því að inniviðir, aðstæður og metnaður sé mun meiri á Straumsvíkursvæðinu en gerist hér suður með sjó. 

Ákvörðunin hafi samt sem áður verið erfið en Keflavík sé að missa helvíti mikið af kjarnanum sínum vegna peningavandamála sem er helvíti súrt að sögn. Ef Keflavík hefði getað bætt í þá hefðum við getað farið helvíti langt með þetta lið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samkvæmt þessari lýsingu virðist nokkuð ljóst að knattspyrnumenn í Bestu deildinni hugsa fyrst um peninga. Og svo annað. Ef þið spyrjið mig þá er það bara í góðu lagi að hugsa fyrst um eigin hag. Því verður er verkamaður launa sinna. Sama hvort hann er knattspyrnuverkamaður (sem er í raun íþróttaskemmtikraftur) eða bara venjulegur verkamaður í dagvinnu.

 Vandinn við rekstur íþróttafélaga er margþættur. Að spila knattspyrnu á stærsta sviðinu á Íslandi í dag, Bestu deildinni, gerir enginn af áhugamennsku. Besta deildin er ekkert áhugaleikhús. Hún er Þjóðleikhúsið. Öfugt við Þjóðleikhúsið, hið eina sanna, þá hafa íþróttafélögin á Íslandi engar styrkveitingar frá hinu opinbera sem gera þeim kleift að halda úti á bilinu tuttugu til þrjátíu starfsmönnum á launum. Til að hafa lið þarftu þjálfara og völl. Til að reka völlinn þarftu vallarstjóra því til viðbótar framkvæmdastjóra til að halda utan um allt bixið. Svo þarftu sjúkraþjálfara, aðstoðarþjálfara, liðsstjóra og vitanlega að minnsta kosti tuttugu leikmenn.  En hvernig aflar þessi þrjátíu manna hópur tekna? Eins og í öllum leikhúsum þá eru sýningar. Í þessu tilfelli eru sýningar bæði á heima- og útivelli. Í tilviki Keflavíkur er staðan sú að af öllum liðum í Bestu deildinni, þá koma næstfæstir á heimaleiki hjá Keflavík. Það er að segja – Keflavík er fallsæti ásamt Leikni sé mið tekið af fjölda áhorfenda.

Það þýðir þar sem miðar á leiki kosta alls staðar það sama, að þrátt fyrir að Keflavíkurliðið sé frábært, þá er það næstóvinsælasta knattspyrnuliðið í Bestu deildinni og sækir þar af leiðandi næstminnstu áhorfendatekjurnar.  Það merkilega er líka að helmingi færri áhorfendur voru á heimaleikjum Keflavíkur en útileikjum.

Tæplega 6.000 manns komu að horfa á heimaleiki Keflavíkur í sumar. Miðað við 2.000 kr. miðaverð, og launakröfur leikmanna, er ljóst að knattspyrnulið verður ekki rekið fyrir miðasölutekjur eingöngu.  En einhvers staðar á milli liggur sannleikurinn og ljóst er miðað við það sem fram kemur í áðurnefndu viðtali að einstaklingar, fyrirtæki, sjálfboðaliðar og sveitarfélagið verða að herða sig hafi þau einhvern áhuga á að Keflavík verði best í Bestu. Því ekki ætla leikmenn að draga neitt úr kröfum sínum, þrátt fyrir að vera í fallsæti á vinsældalistanum. Og aðrir telja að sú fjárfesting sem í þá hefur verið lögð – sé einskis virði – og láta sig hverfa á brott á frjálsri sölu. Það finnst mér óboðlegt.

En eins og alltaf í öllu þessu –gleymist framlag sjálfboðaliðans. Án hans er þessu sjálfhætt.