Pistlar

Veldisvöxtur
Föstudagur 13. ágúst 2021 kl. 10:37

Veldisvöxtur

LOKAORÐ Margeirs Vilhjálmssonar

Veldisvöxtur er án nokkurs vafa orð ársins. Merking orðsins skýrir sig sjálf en túlkun þess virðist nokkuð frjálsleg. Frelsiskerðingar til að varna veldisvexti veiru sem meginþorri þjóðarinnar hefur nú verið bólusettur við þykja sjálfsagðar. Þær voru framlengdar nú í byrjun vikunnar og munu ná fram til næstu mánaðamóta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ein áhugaverðasta blaðagrein ársins var rituð af Keflvíkingnum Erni Arnarsyni í Viðskipablaðinu þann 9. ágúst, Geðshræring í veldisvexti. Þar bendir Örn réttilega á að árið 2009 þegar svínaflensan stóð sem hæst þá var Landspítalinn færður á næst hæsta viðbúnaðarstig en þá lágu 35 sjúklingar á spítalanum vegna Svínaflensunnar og átta á gjörgæslu. Samkvæmt forstjóra spítalans réð starfsfólkið þá vel við álagið. Þegar grein Arnar er skrifuð liggja tveir á gjörgæsludeild vegna Covid og fimmtán í það heila á Landsspítalanum, 200 manna samkomutakmarkanir eru á landinu, meginþorri þjóðarinnar bólusettur fyrir veirunni og hefja á skólastarf með grímuskyldu.

Það er mál að linni og hver og einn verði látinn taka ábyrgð á sjálfum sér. Íslenska þjóðin hefur öll tekið þátt í bólusetningarátakinu af svo mikilli ákefð að þeir örfáu sem hafa leyft sér að efast opinberlega um gildi bólusetninga eru teknir af lífi bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Íslenska hjarðhegðunin klikkar ekki. Sama hvað á dynur.