Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Vaxandi  hugarfar
Föstudagur 8. nóvember 2024 kl. 06:02

Vaxandi hugarfar

Ég fékk að heyra það í hrekkjavökuteiti hjá dóttur minni og vinkonum hennar að börnin í öðrum bekk hefðu verið að læra um vaxandi hugarfar í skólanum. Stúlkurnar gátu svo gefið mér fjölmörg dæmi um aðstæður þar sem gott gæti verið að nota þetta nýja jákvæða hugarfar. Ég hlustaði af mikilli athygli og fór að hugsa hversu oft við fullorðna fólkið mættum tileinka okkur slíka hugsun. Nú þegar kosningar eru á næsta leyti væri tilvalið að skoða okkur sem samfélag í heild og þau gildi sem við viljum standa fyrir. Hvaða stéttaskiptingu viljum við? Hvernig væri að stokka upp stéttunum og fara að setja fólk í flokka eftir nýjum gildum. Hætta að flokka fólk eftir peningum, klæðaburði eða starfi. Flokkum okkur eftir jákvæðum gildum og réttsýni.

Við höfum valdið til þess að breyta þeirri stéttaskiptingu sem svo lengi hefur verið við lýði hér. Við getum búið til okkar eigin. Frá mínum bæjardyrum séð væru hinir fullkomnu leiðtogar þau sem þekkja hinn raunverulega grunn góðs og heilbrigðs samfélags. Þau sem standa fyrir velferð okkar allra mikilvægasta fólks, barnanna, sem eru jú framtíð okkar annars ágæta lands. Þau sem gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að hlúa að þeim sem greiddu okkur leiðina, gamla fólkinu. Þau sem láta sig málin varða þegar kemur að geðheilbrigði, öryggi og velferð allra stétta í samfélaginu. Einhvern sem þorir að breyta um stefnu og marka nýtt upphaf með það markmið að bæta lífsgæði almennings, tryggja réttlæti og jöfn tækifæri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég segi hinn fullkomni leiðtogi en veit á sama tíma að enginn er fullkominn. Það sem ég vil samt umfram allt annað er að hafa fólk í brúnni sem ber hag okkar hinna fyrir brjósti og tileinkar sér vaxandi hugarfar.

Okkar er valið.