NetogTV
NetogTV

Pistlar

Ufsakvótinn er nokkuð stór þetta fiskveiðitímabil
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 5. júlí 2024 kl. 08:02

Ufsakvótinn er nokkuð stór þetta fiskveiðitímabil

Þá er júnímánuður liðinn og það þýðir að tveir mánuðir eru liðnir af strandveiðitímabilinu. Miðað við hversu lítill þorskkvóti er eftir þá má búast við því að veiðar stöðvist um miðjan júlí eða jafnvel fyrr. Mun þá verða steindautt í höfnunum á Suðurnesjunum? Nei, í raun og veru ekki því undanfarin ár, og þá í júlí og ágúst, hefur töluverður fjöldi af færabátum komið til Sandgerðis og þessi bátafloti hefur verið að eltast við ufsann við Eldey og þar í kring.

Það er nefnilega þannig að ufsakvótinn þetta fiskveiðitímabil er nokkuð stór og mikill því alls var ufsakvótinn 53 þúsund tonn, síðan var ufsakvóti færður frá fiskveiðiárunum 2022–2023 og samtals var kvótinn því 68 þúsund tonn. Núna hafa aðeins verið veidd 28 þúsund tonn og það þýðir að eftir eru 40 þúsund tonn af ufsa óveidd.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þegar svona stutt er í nýtt fiskveiðiár þá er leiguverð á ufsakvóta frekar lágt og verð á markaði nokkuð gott svo það er fengur fyrir sjómenn að ná sér í ufsakvóta og eltast við þennan fisk. Þannig að já, þó svo að strandveiðitímabilið muni klárast þá mun samt verða líf í höfnunum og þá mest í Sandgerði.

Nú þegar eru nokkrir bátar á færaveiðum sem eru ekki á strandveiðum, til að mynda Ragnar Alfreðs GK sem hefur landað 7,3 tonnum í tveimur róðrum og Bergur Vigfús GK sem hefur landað 5,8 tonnum í tveimur róðrum.

Bergur Vigfús GK var búinn að vera uppi í slippnum í Njarðvík í um þrjú ár og því kærkomið að þessi bátur sé kominn á flot aftur og farinn að veiða.

Annars fyrir utan færabátana þá er enginn línubátur fyrir sunnan að veiða nema nokkrir stærri bátar sem hafa verið að eltast við löngu og keilu. Sighvatur er búinn að landa 260 tonnum í Grindavík í þremur róðrum og af þeim afla er 47 tonn af löngu, 81 tonn af hlýra og 50 tonn af keilu. Valdimar GK kom með 48 tonn til Grindavíkur og Páll Jónsson GK kom með 159 tonn í tveimur róðrum til Grindavíkur, af þeim afla voru 49 tonn af keilu.

Af minni bátunum þá byrjuðu Sævík GK og Daðey GK veiðar í júní fyrir sunnan en báðir eru komnir í slipp. Særif SH frá Rifi er búinn að vera á veiðum á Selvogsbanka og hefur landað í Þorlákshöfn. Báturinn kom þó til Sandgerðis með 8,8 tonn og af þeim afla var langa 3,8 tonn og ýsa 2,5 tonn.

Aðalbjörg RE er eini dragnótabáturinn á Suðurnesjum sem hefur róið allan júní og gengið nokkuð vel. Er báturinn kominn með 94 tonn í tíu róðrum. Það sem vekur athygli við þennan afla er að það eru aðeins 10 tonn af þorski í aflanum, mest af aflanum hjá bátnum er koli.

Rækjuveiðarnar hjá Nesfiskstogurunum hafa gengið ágætlega, þeir eru reyndar ekki að veiða með skilju og því er töluvert um fisk í aflanum hjá þeim. Sóley Sigurjóns GK landaði í júní 131 tonni í þremur róðrum og af því var 58 tonn rækja. Pálína Þórunn GK var með 96 tonn í þremur róðrum og af þeim afla þá var 31 tonn af rækju.

Rækja fer til vinnslu á Hvammstanga en mestöllum fiskinum er ekið til Sandgerðis og Garðs til vinnslu.