Flugger
Flugger

Pistlar

Tíminn, trúnó og tónleikar
Föstudagur 30. júní 2023 kl. 06:21

Tíminn, trúnó og tónleikar

Við fjölskyldan erum búin að vera mjög dugleg að fara á alls konar viðburði og tónleika síðan við fluttum til Parísar. Við erum í forréttindastöðu – hingað koma nánast allar hljómsveitir á tónleikaferðalagi sínu og því hægt um vik. Okkar tónleikalisti inniber allt frá Ásgeiri Trausta til Rolling Stones; frá Cure og Coldplay, Elton John og Ed Sheeran til Aha og Black Eyed Peas, svo eitthvað sé nefnt.

Um síðustu helgi var hin sígilda hljómsveit Depeche Mode með tónleika á Stade de France – ein af þessum gullaldar „eitís“ hljómsveitum sem undirrituð dansaði upp á borðum við á Kvennaskólaárunum. Tónlistin tekur mann í tímaflakk, færir mann aftur á ákveðinn stað, á ákveðinn tíma. Það var því einstaklega viðeigandi að tvær af mínum allra bestu Kvennaskólavinkonum, og dansfélögum uppi á borðinu góða, tóku almennilega skyndiákvörðun, stukku yfir hafið og við skelltum okkur á tónleika.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta var algjörlega ógleymanlegt, stórkostlega dýrmætt og einstaklega nærandi.

Og já – tónleikarnir voru mjög fínir líka!

En samveran – maður lifandi. Við töluðum fram á nótt, hlógum þar til við urðum bláar í framan, fórum á heldjúpan trúnó, rifjuðum upp og réðum í framtíðina. Plús við keyptum skó. Og tösku. Við leystum alls konar mál og ég er ekki frá því að heimurinn almennt sé einfaldlega betri eftir þessa helgi, svo góðir voru straumarnir sem við sendum frá okkur. Og það er svo skrýtið með tímann – þegar maður talar um að eitthvað sögulegt hafi gerst fyrir 40 eða 50 árum finnst manni það mjög langt síðan. En þegar við vinkonurnar vorum að rifja upp eitthvað úr okkar 40 ára vináttu fannst okkur það nánast hafa gerst í gær.

Það er nefnilega þannig (og nú hljóma ég verulega rúmlega miðaldra) að það virðast bara vera tveir vikudagar í hverri viku – mánudagurinn er varla búinn þegar það er kominn föstudagur, Keflavíkurblótið rétt að klárast þegar jólaskrautið fer upp aftur. Það er of margt sem maður geymir þangað til síðar – „við hittumst bara næst þegar ég kem“, „við gerum þetta bara seinna“. Og svo kemur kannski aldrei þetta „seinna“.

En gott fólk, og þetta hljómar eins klisjukennt og það gerist, málið er einfaldlega að lífið er núna og við eigum að njóta stundarinnar.

Það er nefnilega aukabónus í boði - við getum jafnvel upplifað stundina aftur fjörutíu árum síðar, verið kominn á ónefndan skemmtistað við Austurvöll, öskursyngjandi „We just can’t get enough“ með Depeche Mode í góðra vina hópi. Og þá hlýnar manni í hjartanu.