Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Pistlar

Stutt eftir af fiskveiðiárinu
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 25. ágúst 2023 kl. 07:59

Stutt eftir af fiskveiðiárinu

Ansi stutt eftir af fiskveiðiárinu 2022–2023 og þar með mun allt fara í gang aftur.

En áður en það gerist þá munu tvær bæjarhátíðir verða og sú fyrri er núna í gangi, Sandgerðisdagar, sem er orðin sameiginleg bæjarhátíð Sandgerðis og Garðs. Hún heitir í dag bæjarhátið Suðurnesjabæjar og mun hápunktinum verða náð laugardaginn 26.ágúst með hátíð út á Garðskaga, og flugeldasýningu.

Þar á eftir mun svo Ljósanótt koma og hún verður um mánaðarmótin, og mun því vera yfir þann tíma sem að fiskveiðiárið 2023–2024 mun hefjast.

Annars hefur þessi ágústmánuður verið svona þokkalegur. Dragnótabátarnir hafa byrjað veiðar aftur og eru núna fimm bátar á dragnót að róa frá Sandgerði. Sigurfari GK með 58.5 tonn í fimm róðrum, Benni Sæm GK 61.4 tonn í sjö róðrum. Siggi Bjarna GK 72.3 tonn í sjö róðrum. Maggý VE 37.7 tonn í þremur og fimmti báturinn er Aðalbjörg RE sem hóf veiðar um það leyti sem að þessi pistill var skrifaður, ekki voru komnar inn aflatölur um bátinn.

Hólmgrímur setti Maron GK í gang núna í ágúst á netaveiðar, og hefur bátnum gengið nokkuð vel. Kominn með tæp 70 tonn í tíu róðrum og mest 12,5 tonn í róðri. Maron GK er búinn að vera með netin utan við Garðskaga og inn í Faxaflóanum. Halldór Afi GK er kominn inn í Keflavík og þar með er hann líka kominn af stað.

Erling KE hefur ekkert róið í ágúst, en hann á eftir óveidd um 244 tonn og af því er búið að færa um 77 tonn á næsta ár .

Eins og greint var frá í síðasta pistli þá hóf bátur loksins veiðar með línu og er ég þá ekki að tala um stóru beitningavélabátanna frá Grindavík því að Margrét GK hóf veiðar frá Sandgerði og hefur báturinn landað 37.3 tonnum í sex róðrum og mest 9,4 tonn í róðri. Þetta er nú nokkuð góður afli miðað við árstíma. Og af þessum afla þá er þorskur 13.9 tonn, langa 8.8 tonn og keila 9.6 tonn.

Hinir minni línubátarnir eru út á landi, t.d er Hópsnes GK með 48.5 tonn í ellefu róðrum, og Dúddi Gísla GK 31 tonn í fimm róðrum, Sævík GK 17.3 tonn í tveimur, Gulltoppur GK 9.9 tonn í þremur og Daðey GK 6 tonn í einni löndun, allir lönduðu á Skagaströnd.

Sóley Sigurjóns GK er ennþá á rækjuveiðum og hefur núna í ágúst landað 70 tonnum í einni löndun og af því var rækja 47.2 tonn og þorskur 22.4 tonn.

Af öðrum togurunum má nefna að Tómas Þorvaldsson GK kom til Grindavíkur með 579.2 tonn af frystum afla og af þeim afla var þorskur 85 tonn, grálúða 154 tonn, 111 tonn af gulllaxi og 71 tonn af löngu.

Hinn frystitogari Þorbjarnar ehf, Hrafn Sveinbjarnarson GK kom líka í Grindavík og var með 455.3 tonn í einni löndun. Af þeim afla var þorskur 181 tonn, ufsi 69 tonn og 54 tonn af löngu.

Vörður ÞH hefur landað 251 tonnum í þremur löndunum í Grindavík og Áskell ÞH 208 tonnum, líka í þremur róðrum í Grindavík.

Ég minnstist áðan á frystitogaranna Tómas Þorvaldsson GK og Hrafn Sveinbjarnarson GK sem eru báðir í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík. Í gegnum vinnu mína með aflatölur þá hef ég haft kynni af því fyrirtæki og þeim bræðrum Gunnari og Eiríki Tómassonum. Það er nefnilega þannig að ég er ekki bara að skrifa þessa pistla eða reka síðuna aflafrettir.is, heldur hef ég síðan árið 1990 safnað saman aflatölum um alla íslenska báta aftur til ársins 1894.

Þetta aflagrúsk mitt barst til þeirra bræðra og þeir hafa stutt mig í gegnum árin í þessu grúski mínu. Togarinn Tómas Þorvaldsson GK er nefndur eftir sjómanni sem var einn af fjórum sem stofnuðu Þorbjörn hf. í nóvember árið 1953 og um 1978 þá verður sonur Tómasar, Eiríkur Tómasson framkvæmdastjóri fyrirtækisins með Gunnari bróður sínum. Eiríkur var framkvæmdastjóri til ársins 2018 þegar hann lét af störfum vegna veikinda.

18.ágúst 2023 lést Eiríkur og vil ég votta aðstandendum og fjölskyldu Eiríks innilegrar samúðarkveðjur og takk Eiríkur fyrir stuðninginn sem þú veittir mér í grúskinu mínu.