Flugger
Flugger

Pistlar

Strandveiðin 2024 að hefjast
Bára SH og er búinn að vera á sæbjúgnaveiðum inni í Faxaflóa og gengið nokkuð vel.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 3. maí 2024 kl. 06:07

Strandveiðin 2024 að hefjast

Þá er þessi aprílmánuður kominn á enda og hann einkenndist af stoppinu sem tengist hrygningu þorsksins, öðru nafni kallað hrygningarstoppið.

Framundan eru tvær mikilvægar dagsetningar í maí. Fyrir það fyrsta hefst strandveiðin árið 2024 en fyrsti dagurinn sem bátarnir mega fara á sjóinn er 2. maí, hin dagsetningin er 11. maí. Hvað er svona merkilegt við þennan dag, 11. maí? Jú, þessi dagur var eitt sinn merkilegur því hann þýddi lok vertíðar hvers vetrar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Núna er þessi dagur, 11. maí, varla til á dagatölum landsmanna, til dæmis á dagatalinu sem situr fyrir framan lyklaborðið mitt sem ég skrifa þennan pistil með. Hvergi er minnst á lokadaginn. Nánar um það síðar.

Annars þó svo að aprílmánuður væri stuttur út af stoppinu þá var veiði bátanna góð og mjög margir voru að undirbúa bátana sína til þess að vera klárir á strandveiðina þegar hún hefst. Í Sandgerði eru til dæmis hátt í 60 bátar sem munu vera að róa til strandveiða þaðan núna í sumar.

Reyndar er ein krafa strandveiðisjómanna sú að þeir geti fengið að veiða í 48 daga, sem sé um tólf daga í mánuði, en vegna þess hversu margir bátar eru á þessum veiðum (þeir eru líklega yfir 700 talsins og þorskkvótinn aðeins um tíu þúsund tonn) þá reikna margir með að strandveiðitímabilinu árið 2024 muni jafnvel ljúka snemma í júlí.

Reyndar er færaveiði bátanna núna í apríl búin að vera nokkuð góð og er Sella GK komin með 12,5 tonn í átta róðrum og mest 2,3 tonn í róðri, Fagravík GK 9,4 tonn í sex róðrum og mest 2,4 tonn í róðri og Dímon GK með 8 tonn í fimm róðrum og mest 1,8 tonn í róðri, af þessum afla eru um 4 tonn af ufsa. Líf NS er með 6,3 tonn í fimm róðrum, Viktor Sig HU 6,3 tonn í sex og af því er ufsi 4,8 tonn. Allir þessir bátar landa í Sandgerði.

Línuveiði bátanna er búin að vera nokkuð góð og nokkur fjöldi af línubátum hefur verið að landa í Grindavík. Einhamarsbátarnir hafa landað öllum afla sínum í Grindavík í apríl en bátarnir frá því fyrirtæki hafa reyndar ekki farið í marga róðra hver bátur. Gísli Súrsson GK með 82 tonn í átta róðrum, Auður Vésteins SU 64 tonn einnig í átta og Vésteinn GK 43 tonn í fjórum róðrum. Valdimar GK 268 tonn í þremur róðrum og Sighvatur GK 496 tonn í fjórum, báðir hafa þeir aðeins landað í Grindavík.

Margrét GK er kominn með 103 tonn í níu róðrum og mest 17 tonn í róðri, Geirfugl GK 27 tonn í þremur róðrum og mest 12 tonn í róðri og Hulda GK 37 tonn í sex róðrum, allir landa í Sandgerði.

Friðrik Sigurðsson ÁR, sem Hólmgrímur er búinn að vera með á leigu í vetur, var í neta-rallinu og gekk nokkuð vel hjá honum. Hann var með 137 tonn í sex róðrum og er núna kominn aftur til Njarðvíkur en hefur engu landað þar. Erling KE hóf aftur á móti veiðar eftir stoppið og er kominn með 114 tonn í tíu róðrum og Halldór Afi GK er með 22 tonn í átta róðrum.

Í Njarðvík er bátur núna sem er að stunda veiðar á sæbjúgu. Hann heitir Bára SH og er búinn að vera á veiðum inni í Faxaflóanum og gengið nokkuð vel, kominn með 37 tonn í ellefu róðrum og mest um 7 tonn í róðri.

Á landinu öllu eru aðeins þrír bátar að veiða sæbjúgu. Auk Báru SH er Klettur ÍS og Jóhanna ÁR á þessum veiðum en báðir eru þeir á veiðum á austurlandinu. Jóhanna ÁR á ansi mikla tengingu við Suðurnes því báturinn var lengi gerður út frá Sandgerði og hét þá Sigurfari GK. Var báturinn fyrst á trolli og síðan á dragnót. Jóhanna ÁR komin með 173 tonn í fimmtán róðrum, mest 26 tonn í róðri, og Klettur ÍS með 195 tonn í tólf róðrum og mest 20 tonn í róðri.

Klettur ÍS á ekki mikla tengingu við Suðurnes en þessi bátur var smíðaður á Seyðisfirði árið 1975 og var á Hornafirði í um tuttugu ár og hét þar Hvanney SF – en það má geta þess að núverandi Sigurfari GK, hét um tíma Hvanney SF.