Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Stærsta páskaeggið
Föstudagur 29. mars 2024 kl. 06:04

Stærsta páskaeggið

Síðustu mánuði höfum við stórfjölskyldan fylgt ömmu á nýjan áfangastað hinnar löngu lífsins brautar.  Amma, sem er komin á tíræðisaldur, hefur í gegnum tíðina fylgt ættingjum, vinum og kunningjum sínum þennan sama veg. Þótt minnið bregðist henni stundum þá veit hún vel að slíkur er gangur lífsins að ekki er hægt að hægja á tímanum. Áður fyrr var amma nefnilega alltaf á fleygiferð, hún hljóp allt sem hún fór og ávallt hafði hún nóg fyrir stafni. Svona á meðan líkaminn bar hana. Hún horfði á okkur til skiptis þegar hún hafði komið sér fyrir á nýja staðnum, laut höfði og sagði: „Vitið þið það… ég hélt að þetta myndi aldrei koma fyrir mig“.

Það eru ákveðin kaflaskipti í lífinu sem við munum flest hver upplifa: Við tökum fyrstu skrefin sem ungabörn, förum í gegnum kynþroskann sem unglingar, flytjum úr foreldrahúsum sem ungt fólk og búum okkur líf allt fram að ellinni. Þegar það stærsta er yfirstaðið fáum við að fylgjast með af hliðarlínunni, börnum og barnabörnum vaxa og dafna og feta lífsins veg eins og við gerðum. En þegar svo að því kemur að við getum ekki hugsað um okkur sjálf og við þurfum að reiða okkur á aðstoð annarra er starf hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og umönnunaraðila ómetanlegt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að geta ekki verið án ákveðinna starfsstétta fær mig til að velta upp spurningum um stéttaskiptingu samfélagsins. Hvaða störf eru metin að mestum verðleikum? Hverjir eiga skilið stærsta páskaeggið? Eins og staðan er núna eru það þeir valdamestu sem fá stærst og flest egg í sínar körfur. Hinir sem sjá til þess að fólk eldist með reisn og að aðstandendur komist til vinnu mega fá eitt lítið egg hver og skulu jafnframt láta það duga fyrir alla fjölskylduna. Í heimsóknum mínum til ömmu hef ég auðkennt fólk sem eitt sinn var öflugt í félagslífi bæjarins. Nú er ekki spurt hvort um kónga eða presta sé að ræða. Öll eru þau komin á sama stað undir sama þak og fá þá aðstoð sem þau þarfnast. Rétt eins og við sjálf munum einhvern tímann þurfa.