Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Rútína
Laugardagur 16. september 2023 kl. 13:48

Rútína

Í síðasta lokaorðapistli mínum skrifaði ég um sumarfrí og hversu dásamlegt sumarfríið mitt var búið að vera. Mér tókst að verða atvinnumaður í því að gera ekki neitt og hætti að vita hvaða dagur er. Alveg eins dásamlegt og það er þá er líka alltaf notalegt að fá rútínuna í gang að nýju. Skólarnir byrjaðir og allt komið í gang. Eða svona næstum því.

Frakkar kunna nefnilega að taka frí. Hér er meira eða minna allt lokað allan ágúst og svo tekur hálfan september að koma öllu í gang aftur þegar hið svokallað „rentrée“ tímabil tekur við. Endalausir foreldrafundir og aðlögun á öllum skólastigum gerir það að verkum að septemberbyrjun er dálítið á hálfu gasi, jafnvel í alþjóðastofnun eins og OECD.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hjá mér er rútínan samt byrjuð með tilheyrandi krefjandi verkefnum, fundahöldum…já og ferðalögum. Starfið mitt krefst mikilla ferðalaga og þar sem aðildarríki OECD Development Centre, sem ég veiti forstöðu, eru að meirihluta til í þróunarlöndum í Asíu, Afríku og Suður Ameríku er ég mikið að ferðast um langan veg til framandi landa sem ég hef ekki komið til áður. Þessi pistill er einmitt skrifaður á flugvellinum í Dhaka í Bangladesh þaðan sem ég er á heimleið, reyndar með viðkomu í Madrid þar sem önnur verkefni bíða. Í síðustu viku var ég í Jakarta í Indónesíu, í þeirri næstu fer ég til New York og þeirri þarnæstu til Costa Rica. Og þannig heldur ferðarútínan mín áfram næstu mánuði.

Það eru sannkölluð forréttindi að fá að vinna með allskonar löndum, ólíkum menningarheimum að fjölbreyttum verkefnum sem öll þó snúast um að finna leiðir til þess að bæta lífsgæði þjóða sem stödd eru á mjög mismunandi stað í þróunarferlinu. Það sem hefur verið einstaklega áhugavert er að sjá hvað við erum þegar á botninn er hvolft - öll, hvaðan sem við erum - að sækjast eftir sömu hlutunum. Hvort sem ég er að vinna með stjórnvöldum í Togo eða Tyrklandi, Panama eða Portúgal, Belgíu eða Bangladesh, Danmörku eða Dóminíkanska lýðveldinu er markmiðið á endanum alltaf það sama – að gera líf borgaranna betra með góðri stefnumótun á grundvelli gagna og rannsókna. 

Þessi vinna snýst mikið um að bera þjóðir saman og skoða hvað virkar og hvað má betur fara, og læra hvert af öðru. Reyna að skilja hvað það er sem dregur úr framförum og finna lausnir og hvata til umbóta. 

Þegar ég sem Íslendingur ber okkur saman við aðrar þjóðir erum við yfirleitt á flestum mælikvörðum á meðal þeirra bestu. Á Íslandi er mesta jafnréttið, menntakerfið betra en víða, velmegun mikil og fátækt sem betur fer lítil. Við viljum auðvitað alltaf gera betur og eigum að sjálfsögðu að gera það. En stundum er gott að staldra við – getur verið að við tökum hagsæld okkar sem sjálfsögðum hlut, jafnvel sem ákveðinni rútínu?