Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Óvenjulega góð veiði hjá línubátunum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 15. september 2023 kl. 04:46

Óvenjulega góð veiði hjá línubátunum

Septembermánuður svo til að verða hálfnaður og hann byrjar bara nokkuð vel gagnvart sjósókn og veiðum bátanna frá Suðurnesjum.

Byrjum á dragnótabátunum því að veiðar í Faxaflóanum, eða Bugtinni eins og hún er kölluð, hófust núna 1. september og þær hafa gengið mjög vel. Þrír bátar eru á veiðum þar, það eru Aðalbjörg RE sem er kominn með 21,4 tonn í þremur róðrum en báturinn landar í Reykjavík, þó er áhöfn bátsins að mestu mönnuð Sandgerðingum sem voru meðal annars á Njáli RE. Siggi Bjarna GK er kominn með 97 tonn í fimm róðrum og þorskur af því er 56 tonn. Benni Sæm GK er kominn með 86 tonn í fimm róðrum og þorskur af því er um 40 tonn, stærsta löndun Benna Sæm GK er 28 tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sigurfari GK er kominn með 77 tonn í fimm róðrum og Maggý VE 54 tonn í fimm, báðir bátarnir eru á veiðum á Hafnarleir en þeir hafa ekki leyfi til þess að veiða inni í Faxaflóanum því þeir eru lengri en 24 metrar.

Nokkrir færabátar hafa verið á veiðum það sem af er september, t.d. Dímon GK sem var með 1,3 tonn í einni löndun, Líf NS 974 kíló líka í einum róðri, Tóki ST 870 kíló, Binna GK 527 kíló og Guðrún GK 2,2 tonn, allir með eina löndun og allir í Sandgerði. Agla ÁR 1,7 tonn í einni löndun sem landað var í Grindavík.

Það vekur kannski mesta athygli að núna í byrjun september eru fjórir línubátar á veiðum utan við Sandgerði en þetta eru allt bátar sem hingað til fóru austur eða norður til veiða. Þessir fjórir bátar eru Sighvatur GK sem landaði 90 tonnum í einni löndun í Grindavík en hann er núna í róðri númer tvö og er búinn að vera við veiðar utan við Sandgerði. Hinir þrír eru Jón Ásbjörnsson RE sem er kominn með 28 tonn í fimm róðrum og mest 7,2 tonn, Margrét GK er kominn með 34 tonn í fimm róðrum og mest 9,3 tonn og Óli á Stað GK er kominn með 21 tonn í þremur róðrum og mest 7,8 tonn.

Undanfarin ár hefur línuveiði frá Suðurnesjum verið lítil sem engin og það er því nokkuð gleðiefni að þessir fjórir bátar séu á veiðum hérna frá Suðurnesjum, reyndar allir á veiðum utan við Sandgerði og þeir landa allir hérna – Sighvatur GK í Grindavík og hinir eru í Sandgerði.

Það að veiðin sé þetta góð hérna er líka ódýrara fyrir fyrirtækin því það kostar ansi mikið að keyra fiski t.d. frá Siglufirði, Djúpavogi, Skagaströnd og jafnvel Ísafirði suður til Grindavíkur og að einhverju leyti til Sandgerðis. Svo það er bara mjög margt jákvætt við þessa óvenjulega góðu veiði sem er hjá línubátunum utan við Sandgerði.

Reyndar er nú einn bátur á veiðum úti á Selvogsbanka utan við Grindavík en það er Særif SH frá Rifi. Hann hefur landað 36 tonnum í tveimur róðrum og uppistaðan í þeim afla er langa 13,6 tonn og keila 12,4 tonn, 6,9 tonn af þessum afla er þorskur og landaði báturinn þessum afla í Þorlákshöfn.

Af þeim bátum sem eru við veiðar fyrir norðan þá er t.d. Sævík GK með 23,6 tonn í fjórum róðrum, mest 6,7 tonn, Daðey GK 23,5 tonn í fjórum, mest 8,1 tonn, báðir á Skagaströnd. Gísli Súrsson GK með 25,3 tonn í fjórum og mest 10,8 tonn, Auður Vésteins SU 47,3 tonn í sex og mest 10,7 tonn og Vésteinn GK 18,3 tonn í þremur og mest 9,5 tonn. Allir á Stöðvarfirði.

Bíð með að skrifa um netaveiðarnar því það er ansi mikið um að vera þar. Nema þó að Erling KE er kominn í slipp í Njarðvík en það verður nóg til að veiða hjá áhöfninni á Erlingi KE því þeir fengu úthlutað um 1.616 tonna kvóta og nú þegar er búið að millifæra 228 tonn yfir á fiskveiðiárið 2024–2025 svo eftir stendur um 1.400 tonn sem er óveidd.