Flugger
Flugger

Pistlar

Munur á útgerð  og vinnslu á 30 árum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 30. júní 2023 kl. 06:23

Munur á útgerð og vinnslu á 30 árum

Júnimánuður svo til kominn á enda þegar þessi pistill kemur og það er búið að vera frekar rólegt í höfnunum á Suðurnesjum nema kannski í Sandgerði þar sem þessi gríðarstóri floti af færabátum hefur verið við veiðar.

Ég ætla að fara með ykkur í smá ferðalag og kíkja á júní árið 1993, sem sé fyrir 30 árum síðan. Þá var nú mun meira um að vera í Grindavík, Sandgerði og Keflavík. Margir bátar að landa og þá var humar og rækja líka að koma á land. Heildarafli sem kom á land í júní árið 1996 í þessum þremur höfnum var alls tæp 7.600 tonn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Byrjum í Keflavík. Já, þá var líf í Keflavíkurhöfn – og reyndar í Njarðvík líka. Annað en er núna árið 2023. Þá voru 33 bátar sem lönduðu afla í Keflavík/Njarðvík og af því voru tveir rækjubátar og tveir togarar. Eldeyjar Súla KE var með 300 tonn í fimm löndunum og Þuríður Halldórsdóttir GK með 298 tonn í fjórum róðrum. Fjölnir GK var með 6,4 tonn  í einum og Erling KE 51 tonn í fjórum róðrum, báðir á rækju. Auk þess var Erling KE með 30 tonn af fiski með rækjunni.

Annars var Albert Ólafsson KE aflahæstur í Keflavík í júní 1996 með 162 tonn í fjórum róðrum á línu. Þar á eftir kom Happasæll KE (sem við kvöddum í síðasta pistli en þá hét hann Grímsnes GK) en Happasæll KE var með 124 tonn í fjórtán róðrum. Skotta HF, sem var línubátur, var með 122 tonn í þremur. Aðrir bátar í Keflavík í júní 1996 voru t.d. Gunnar Hámundarsson GK með 38 tonn í þrettán á netum, Jaspis KE, sem var smábátur, var með 8,3 tonn í tíu á netum, Adam AK, sem líka var smábátur, var með 10,5 tonn í átján róðrum.

Grindavík. Þar var ansi mikið um að vera og bæði humri og rækju var landað þar. Bátarnir í júní árið 1996 voru samtals 63 sem lönduðu og aflinn samtals 3.594 tonn. Af þessum afla var humar 99 tonn og rækja 118 tonn, 73 tonn af þessari rækju var eldeyjarrækja.

Togarinn Gnúpur GK (gamli með sknr 1363) var með 366 tonn í fjórum róðrum, Þorsteinn Gíslason GK var hæstur humarbátanna með 20 tonn í sex róðrum, Gaukur GK 18,8 tonn í sjö, Máni GK 17,4 tonn í níu, Reynir GK 16,8 tonn í sjö. Af rækjubátunum var Ólafur GK með 24 tonn í sjö, Eldhamar GK 11 tonn í þremur og Kári GK 18 tonn í fimm. Reyndar var Grindvíkingur GK með 45 tonn af rækju í einni löndun sem var fryst um borð.

Trollbáturinn Oddgeir ÞH var hæstur í Grindavík í júní 1996 með 388 tonn í tíu róðrum, þar á eftir kom annar trollbátur sem hét Hafberg GK sem var með 263 tonn í átta róðrum, Júlli Dan GK (sem síðar varð Erling KE) var með 226 tonn í sextán róðrum á netum, Sæborg GK 161 tonn í fjórum, líka á netum. Skarfur GK 197 tonn í þremur, Hrugnir GK 162 tonn í fjórum og Kópur GK 160 tonn í fjórum, allir þrír á línu.

Nokkrir bátar voru á færum og var Sæsteinn GK hæstur með 18,2 tonn í tólf og þar á eftir kom Kotey RE með 16,5 tonn í ellefu róðrum.

Langflestir bátanna í júní 1996 lönduðu í Sandgerði en það voru alls 81 bátur sem landaði og samtals var aflinn 2.765 tonn. Af þessum afla voru þrír togarar sem lönduðu. Haukur GK sem var með 443 tonn í þremur, Ólafur Jónsson GK 428 tonn í fjórum og Sveinn Jónsson GK sem var með 560 tonn í fjórum og mest 205 tonn í einni löndun sem er fullfermi hjá honum og vel það.

Humaraflinn var alls 108 tonn þar sem að Hafnarberg RE var aflahæstur með 19,4 tonn í sex (var að auki með 38 tonn af fiski), Una í Garði GK 16 tonn í átta, Skarphéðinn RE 14 tonn í sex, Ósk KE (sem árið 2023 heitir Maron GK) með 13,9 tonn og Jón Gunnlaugs GK 12,4 tonn í sex (var að auki með 32 tonn af fiski).

Rækjan var alls 79 tonn og var það allt Eldeyjarrækja þar sem Guðfinnur KE var aflahæstur með 26 tonn í níu róðrum, þar á eftir kom Vala KE með 19,4 tonn í tíu róðrum.

Annars var Oddur Sæmundsson skipstjóri á netabátnum Stafnesi KE aflahæstur í Sandgerði með 284 tonn í tíu róðrum á netum og mest 59 tonn í einni löndun. Þar á eftir kom Þorri GK sem var á línu með 139 tonn í þremur. Aðrir bátar voru t.d. Björgvin á Háteig GK á dragnót og með 77 tonn í 21 róðri, Farsæll GK, sem var á dragnót, var með 45 tonn í tólf. Eins og í júní árið 2023 þá var í júní árið 1996 mjög margir færabátar, t.d. Gaui Gísla GK með 25 tonn í fjórtán róðrum, Ösp GK 17,3 tonn í tíu, Nonni KE 13,4 tonn í sextán og Alli KE 11,6 tonn í sextán.

Já, eins og sést þá er þetta gríðarlega mikill munur á útgerð og vinnslu á aðeins 30 árum.