Optical studio
Optical studio

Pistlar

Miklar breytingar í útgerð á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 14. október 2022 kl. 07:01

Miklar breytingar í útgerð á Suðurnesjum

Þá er október kominn í gang eftir ansi góðan septembermánuð. Reyndar er nú frekar rólegt í höfnunum á Suðurnesjunum. Þessi rólegheit leiða kannski hugann af því hversu miklar breytingar hafa orðið í útgerð á Suðurnesjum, segjum síðustu 40 árin. Þá voru hafnirnar í Keflavík, Grindavík, Sandgerði og jafnvel í Njarðvík og Vogum líka sem og Höfnum, að það var landað í öllum þessum höfnum og mikið um að vera.

En hægt og sígandi þá hefur þetta horfið og núna er enginn möguleiki t.d. á að landa í Höfnum, því að þar er t.d. enginn bryggjukrani, hann var tekinn í burtu þegar að Hafnir runnu inn í Reykjanesbæ og höfnin þar var undir heitir Reykjaneshöfn, sem er Njarðvík, Keflavík, Helguvík og Hafnir.  

Optical studio
Optical studio

Núna er komið árið 2022 og bara á þessari öld hefur orðið gríðarlega mikil fækkun á bátum og útgerðum frá Suðurnesjunum og er þetta þróun sem er mjög slæm og sér ekki fyrir endann á.

Eini staðurinn sem hefur kannski haldið velli sem stórútgerðarstaður er Grindavík, þar eru Einhamar ehf., Stakkavík ehf., Þorbjörn ehf. og Vísir ehf. Allt eru þetta það sem kalla mætti fjölskylduútgerðir en núna hefur Vísir ehf. verið selt til SVN á Neskaupstað og einn af eigendum af því fyrirtæki er Samherji á Akureyri.

Hvernig verður þetta eftir t.d. tuttugu ár. Miðað við hvernig þróuninn á þessu er í dag og fiskveiðistjórnunarkerfið er þá má segja að það verði enginn einstaklingsútgerð og þau fyrirtæki sem eru í dag það sem kalla mætti fjölskylduútgerðir, og í þeim hópi er t.d. Nesfiskur ehf í Garðinum, hvað verður um þessi fyrirtæki?

Í raun er frekar sorglegt að sjá hvernig þessi mál eru í dag. Jú, bátarnir eru að veiða meira per bát en einstaklingar sem vilja hefja útgerð er svo til steindautt mál. Eina leiðin fyrir svoleiðis aðila til að komast í útgerð er að byrja á strandveiðunum og reyna að komast í leigukvóta hjá útgerðunum sem eiga kvóta, eða þá reyna að harka af sér með því að leigja kvóta.

Svo til frá aldamótunum 1900 og fram til dagsins í dag þá hafa fiskimiðin við Suðurnesin, og má hafa Faxaflóann með því því, út að Garðskaga meðfram Sandgerði að Reykjanesi og þaðan og áleiðis til Þorlákshafnar, að fiskimiðin þarna utan af hafa verið með fengsælustu fiskimiðum Íslands.

Og þessi mið eru ennþá mjög fengsæl en svo til engir bátar eru eftir hérna til þess að veiða á þessum miðum, í staðinn höfum við þessa svokallaða 29 metra togara sem eru hérna við fjórar mílurnar en eru í raun líka á þeim miðum sem að línu-, færa- og netabátarnir hafa verið að veiðum á. Mjög litlum hluta af þeim afla sem þessir 29 metra togarar veiða er landað á Suðurnesjum. Það er einungis þegar að Pálína Þórunn GK, Sturla GK, Vörður ÞH og Áskell ÞH eru á þessum miðum sem að þeir landa í sinni heimahöfn (reyndar er heimahöfn Varðar ÞH og Áskels ÞH Grenivík en þeir landa svo til aldrei þar, að mestu landa þeir í Grindavík).

Sem betur fer þá eru ennþá aðilar sem vilja gera út frá Suðurnesjum og þá landa þar t.d. Saltver með Erling KE, Hólmgrímur með bátana sína, Nesfiskur með bátana sína og síðan eru dragnótabátarnir Maggý VE og Aðalbjörg RE sem hafa róið frá Sandgerði.

Ég er á kafi í þessum aflatölum svo til alla daga og fæ margt að heyra frá hinum ýmsu aðilum varðandi sjósókn, útgerð og fleira – og því miður þá lítur þetta ekki vel út, framtíðarlega séð, varðandi útgerð frá Suðurnesjunum.  

Þessi pistill er kannski frekar neikvæður en ég sé svo vel hvað hefur verið að gerast og maður spyr sig hvort það sé ekki hægt að snúa þessari þróun við, því að fiskurinn er ekkert að fara, hann mun áfram vera þarna fyrir utan á þessum elstu og fengsælustu fiskimiðum Íslands.