Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Pistlar

Mikill fjöldi af bátum í slippnum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. maí 2024 kl. 06:03

Mikill fjöldi af bátum í slippnum

Það má segja að allt sé komið á fullt núna útaf strandveiðibátunum því mjög stór hluti af þeim flota hefur verið á veiðum og flestir frá Sandgerði, yfir 50 bátar hafa verið að landa þar sem eru á strandveiðunum.

Erling KE heldur áfram á netunum og gengur nokkuð vel, hann er kominn með 161 tonn í níu róðrum og mest 33 tonn í einni löndun. Öllum aflanum er landað í Keflavík. Halldór Afi GK er með 12,1 tonn í sjö róðrum.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Reyndar er búið að taka Halldór Afa GK upp í slippinn í Njarðvík og setja bátinn á deildina sem ég kalla dauðadeildina en mikill fjöldi af bátum er staðsettur þar í slippnum í Njarðvík, sumir bátanna þar hafa staðið þar í mörg ár. Fyrr í vetur voru tveir bátar í þeim hópi, Hafnartindur SH og Staðarvík GK og voru þeir bátar rifnir þar.

Reyndar var stálbáturinn Máni DA málaður hátt og lágt, hann stendur líka í þessari deild í slippnum í Njarðvík. Smávegis kvóti er eftir á Halldóri Afa GK, um 128 tonn.

Það er búið að vera frekar rólegt hjá dragnótabátunum í maí og aflahæstur af þeim í Sandgerði er Maggý VE með 53 tonn í fimm róðrum og mest 18 tonn. Siggi Bjarna GK með 40 tonn í þremur og mest 20 tonn. Sigurfari GK með 26 tonn í þremur róðrum, Benni Sæm GK með 25 tonn í tveimur róðrum og Aðalbjörg RE með 26 tonn í fjórum róðrum.

Togurunum hefur gengið nokkuð vel en út af mikilli óvissu um hvað náttúran gerir næst í Grindavík hafa flestir togararnir landað í Hafnarfirði, þar kom Tómas Þorvaldsson GK með 788 tonn og Hrafn Sveinbjarnarson GK með 748 tonn. Hjá Tómasi var mest af þorski, eða 275 tonn, og hjá Hrafni var  258 tonn af þorski og 227 tonn af ufsa.

Í Hafnarfirði hafa bátar sem eru í eigu fyrirtækis sem er frá Grenivík líka landað. Það heitir Gjögur en þó svo að fyrirtækið sé á Grenivík hafa bátarnir frá Gjögri átt sér mjög langa sögu í Grindavík því þeir hafa landað þar lengi. Gjögur var stofnað árið 1946 og fyrstu tveir bátarnir sem fyrirtækið átti voru Vörður TH 4 og Von TH 5. Á þessum árum voru bátar frá Þingeyjarsvæðinu skrásettir TH, í kringum 1955 breyttist TH yfir í ÞH og bátarnir þaðan eru í dag ÞH.

Varðar-nafnið sem var á fyrsta bátnum sem Gjögur eignaðist og hefur fylgt fyrirtækinu alla tíð síðan og núna árið 2024, gerir fyrirtækið út tvo togara og annar þeirra heitir Vörður ÞH. Hinn heitir Áskell ÞH. Gjögur gerði út 70 tonna eikarbát í 31 ár sem hét Áskell ÞH en sá bátur var smíðaður árið 1959 og var gerður út til 1990, mest allan tíman frá Grindavík.

Oddgeir ÞH er líka nafn á báti sem að Gjögur gerði út. Þó svo að allir þessir bátar séu skráðir með heimahöfn á Grenivík þá hefur Grindavík mestmegnis verið aðallöndunarhöfn bátanna, reyndar var það þannig fyrstu árin frá 1946 að bátarnir frá Gjögri stunduðu línuveiðar um haustið og veturinn frá Grenivík og voru svo á síld og komu þá lítið til Grindavíkur.

Reyndar gerir Gjögur líka út uppsjávarskipið Hákon EA í dag en það nafn hefur fylgt fyrirtækinu í fjöldamörg ár og núverandi Hákon EA var skipt út árið 2001 fyrir bát sem hét þá Hákon ÞH.  Nýr Hákon ÞH er í smíðum í Danmörku. Aftur á móti hefur núverandi Hákon EA lítið sem ekkert komið til löndunar í Grindavík því loðnuverksmiðjan sem var þar brann og var rifin árið 2005.

Núna í maí hafa togarar Gjögurs báðir landað í Hafnarfirði. Áskell ÞH er með 157,2 tonn og Vörður ÞH með 154,5 tonn, báðir í tveimur löndunum.