Pistlar

Merkilega margir bátar á færum svona snemma á árinu
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. janúar 2023 kl. 06:48

Merkilega margir bátar á færum svona snemma á árinu

Það má alveg segja að árið 2023 byrji mjög vel því að það hefur gefið mjög vel til róðra og veiðin er mjög góð hjá bátunum. Eins og greint var frá í síðsta pistli þá eru mjög fáir bátar á veiðum samanborið við það sem áður var. 

Ef við lítum á bátana þá eru þeir flestir á línuveiðum og eins og staðan er núna þá er aðeins einn bátur frá Suðurnesjum á balalínu,Hópsnes GK. Hinir allir eru með beitningavél eða stokka upp í landi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Dúddi Gísla GK er kominn með 33 tonn í sex róðrum og Vésteinn GK 41 tonn í fjórum, báðir landa í Grindavík. Margrét GK er með 60 tonn í sjö róðrum, mest þrettán tonn í róðri, Katrín GK með 27 tonn í þremur, mest tólf tonn í róðri, báðir landa í Sandgerði.

Daðey GK er með 78 tonn í tíu róðrum, mest 10,6 tonn í róðri, Óli á Stað GK með 77 tonn í tólf, mest 11,3 tonn, Hulda GK með 31 tonn í fjórum, mest 10,3 tonn og Kristján HF með 40 tonn í fjórum, mest 21 tonn í róðri. Allir þessir bátar hafa skipst á að landa í Grindavík og Sandgerði, nema Kristján HF sem var með 21 tonna löndun í Hafnarfirði. 

Nokkuð merkilegt er að sjá hversu margir bátar eru á færum núna svona snemma árs – og hefur þeim gengið nokkuð vel. Agla ÁR með 1,9 tonn í tveimur róðrum, Gísli ÍS með 2,1 tonn í tveimur, Sigfús B ÍS með 1,7 tonn í tveimur, Teista SH með 1,1 tonn í tveimur og Grindjáni GK með 571 kíló í einum róðri, allir að landa í Grindavík.

Í Sandgerði er Guðrún GK með 3,3 tonn í þremur róðrum, Von GK 546 kíló í einum, Dímon GK 2,9 tonn í þremur, Líf GK 2,8 tonn í þremur og Arnar ÁR 1,4 tonn í einum róðri.

Eins og sést þá er þetta enginn rosalegur fjöldi af bátum og þegar líður að lokum janúar, þá mun ég bera saman afla og landanir mánaðarins, við janúar árið 1993. Get þó sagt að núna hafa 33 bátar og togarar landað afla í Keflavík, Sandgerði og Grindavík. Í janúar árið 1993 voru 106 bátar og togarar sem lönduðu afla í þessum sömu höfnum og þá eru loðnubátarnir ekki taldir með.

Eina sem hefur fjölgað á þessum 30 árum er að í janúar árið 1993 var aðeins einn bátur á handfærum í janúar, Sikill KÓ 16 sem landaði 1,9 tonn í sex róðrum í Sandgerði en eins og sést að ofan þá eru handfærabátarnir núna í janúar miklu fleiri.

Það fer að styttast í að nýi Erling KE fari til veiða en það er búið að vera að vinna í bátnum síðan hann kom til Njarðvíkur sl. haust og stefnt er að því að Erling KE fari til veiða eftir rúma viku. Það veitir kannski ekki af að fá netabát, því eins og staðan er núna þá eru aðeins þrír netabátar á veiðum frá Suðurnesjum, Maron GK og Halldór Afi GK frá Keflavík/Njarðvík og Hraunsvík GK frá Grindavík.

Aðeins meiri samanburður, núna er þrír netabátar en verða fjórir þegar Erling KE fer af stað en í janúar árið 1993 voru netabátarnir alls 28 talsins.

Ég mun fara nánar í þennan samanburð á janúar 1993 og janúar 2023 þegar að þessi mánuður er á enda kominn og ég sé aflatölurnar betur.