Pistlar

Maron hefur farið í flesta róðra í janúar
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 27. janúar 2023 kl. 06:56

Maron hefur farið í flesta róðra í janúar

Þar kom að því að það kom bræla hérna sunnanlands, því að veðurfarið frá áramótum er búið að vera mjög gott og það gott að minni bátarnir, eins og t.d. færabátarnir, hafa getað róið núna í janúar.

Veiðin hjá bátunum er búin að vera nokkuð góð og má segja að flestir bátanna séu á veiðum hérna við Suðurnesin af þeim bátum sem eru gerðir út frá Suðurnesjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ef við lítum á togarana þá er Pálína Þórunn GK með 124 tonn í tveimur löndunum en athygli vekur að togarinn hefur landað í Grindavík og í Reykjavík, ekki í sinni heimahöfn Sandgerði. Áskell ÞH 131 tonn í tveimur í Grindavík, Vörður ÞH 178 tonn í tveimur í Grindavík, Sturla GK 237 tonn í fimm í Grindavík, Sóley Sigurjóns GK 262 tonn í tveimur og mest 132 tonn og Jóhanna Gísladóttir GK 352 tonn í fimm löndunum.

Hjá netabátunum er Grímsnes GK með 84 tonn í sjö löndunum, Maron GK 63 tonn í þrettán en hann er sá netabátur á landinu sem hefur farið í flesta róðra núna í janúar. Halldór Afi GK 12 tonn í fimm og Hraunsvík GK 6,9 tonn í tveimur í Grindavík.

Kap VE hefur reyndar sést liggja í höfninni í Keflavík en hann hefur verið með netin utan við Sandgerði og við Garðskagavita og veiðir í sig, siglir síðan til Vestmannaeyja með aflann. Hefur landað þar 93 tonn í tveimur róðrum.

Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 155 tonn í þrettán róðrum og er aflahæstur yfir landið þegar þetta er skrifað, mest 25 tonn í róðri. Siggi Bjarna GK 106 tonn í tólf og mest 14 tonn, Benni Sæm GK 91 tonn í ellefu og mest 16 tonn og Aðalbjörg RE 28 tonn í þremur og mest 14 tonn, allir í Sandgerði. Þangað er líka kominn Maggý VE en báturinn var í klössun í slippnum í Njarðvík.

Einn bátur er að veiða sæbjúgu við Ísland núna í janúar og er það báturinn Jóhanna ÁR. Þessi bátur á sér mjög langa sögu í Sandgerði því að í um 30 ár var báturinn gerður út frá Sandgerði og hét þá Sigurfari GK, Jóhanna ÁR er kominn með 10 tonn í þremur róðrum af sæbjúgu.

Langflestir bátanna sem eru að landa núna á Suðurnesjum eru á línuveiðum. Sighvatur GK er með 264 tonn í þremur löndunum, Valdimar GK 263 tonn í þremur, Fjölnir GK 242 tonn í tveimur, Páll Jónsson GK 203 tonn í tveimur, allir í Grindavík.

Minni bátarnir hafa líka veitt vel, t.d. Óli á Stað GK 124 tonn í sautján róðrum og hefur hann róið oftast allra línubátanna, landað í Grindavík og Sandgerði. Kristján HF 121 tonn í níu, Sævík GK 111 tonn í tólf, Margrét GK 111 tonn í þrettán, Daðey GK 104 tonn í þrettán, Vésteinn GK 88 tonn í átta, Gísli Súrsson GK 73 tonn í fimm en hann hefur verið á veiðum í Breiðafirðinum og landað  í Ólafsvík, Auður Vésteins SU 65 tonn í sex og er þetta eini báturinn sem er  að landa fyrir austan af bátunum sem eru gerðir út frá Suðurnesjum en Einhamar ehf. í Grindavík á bátinn. Hulda GK 61 tonn í níu, Hópsnes GK 36 tonn í sjö, Katrín GK 33 tonn í fjórum, Gulltoppur GK 26 tonn í fimm og er hann að landa á Skagaströnd og er eini báturinn frá Suðurnesjum sem landar þar, Geirfugl GK 23 tonn í fjórum.

Flestir af minni bátunum hafa skipst á að landa í Sandgerði og Grindavík en þó eru nokkrir sem hafa haldið sig við einstakar hafnir, t.d. Vésteinn GK í Grindavík, Katrín GK og Geirfugl GK í Sandgerði. Reyndar hafa Margrét GK og Kristján HF landað mestum hluta af afla sínum í Sandgerði. Óli á Stað GK, Daðey GK og Hulda GK hafa landað mestum hluta sínum í Grindavík og Sævík GK var að mestu að landa í Þorlákshöfn.