Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Litla saklausa fellið
Sunnudagur 2. febrúar 2020 kl. 08:38

Litla saklausa fellið

Vinkona mín varð fimmtug í fyrra og ákvað að ganga á fimmtíu fjöll á afmælisárinu – eitt þeirra var Keilir sem allir vita að er auðvitað allt að því hverfisfjall okkar Reyknesinga. Ég verð að viðurkenna að ég varð því pínu svekkt þegar ég sá mynd af henni á samfélagsmiðlum á toppi Keilis ... án mín. Til að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig bauð ég mig fram um að koma með næst þegar hún færi í göngu í mínu hverfi. Hún tók mig auðvitað á orðinu og hafði samband um hæl, það væri annað Reykjanesfjall á listanum … hið eina og sanna Þorbjarnarfell. Allir 243 metrarnir! Þetta var smá skellur og innra með mér bærðist sú áleitna spurning hvort hún treysti mér ekki í hærra fjall? Við gerðum góðlátlegt grín að litla, óþekkta fellinu sem langaði örugglega til að vera frægt fjall, göntuðumst með það að okkur fyndist varla taka því að skokka þarna upp, hóuðum samt í fleiri vinkonur og gerðum fyrirtaks eftirmiðdag úr þessu sem endaði auðvitað með dekri og dinner í Bláa lóninu.

En nú hefur litla, saklausa fellið aldeilis fengið uppreisn æru og er umtalaðasta fjallið á Íslandi í dag og þótt víðar væri leitað. Ástæðan er auðvitað sú að óvissustigi var lýst yfir á svæðinu á sunnudaginn vegna mikillar og óvenjulegrar kvikusöfnunar undir fjallinu. Þetta eru sannarlega stórtíðindi og ekki laust við að beigur setji að manni þegar náttúruöflin minna á sig svona nálægt heimahögunum – hér í hverfinu. Þó svo að við vitum að Reykjanesið er uppfullt af gígum, jarðhita og jarðskjálftum hef ég persónulega aldrei leitt hugann að því í alvöru að hér gæti gosið, enda ekki gerst í fleiri hundruð ár. Vonandi verður ekkert úr því en hvað sem gerist er þetta holl áminning um það hvar við búum og hver það er í raun og veru sem ræður för.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég horfi með aðdáun á alla viðbragðsaðilana sem hafa tekið höndum saman um að undirbúa aðgerðir, svara spurningum og uppfræða almenning – og spá fyrir um framvindu mála eftir bestu þekkingu sem völ er á. Óvissan er verst og þó svo að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um hvort úr þessu verði gos er mikilvægt að tíminn sé nýttur vel til undirbúnings þess versta, þó allir voni auðvitað það besta.

Það er mikið undir, heilt bæjarfélag og mikilvægir innviðir eins og raforkuver, hitaveita, alþjóðaflugvöllur og eitt af undrum alheimsins að mati National Geographic – Bláa lónið. Nú krossum við fingur um að ekkert meira verði úr þessu – en hvað sem verður þá er litla, saklausa fellið er orðið að stóru, frægu fjalli.

Ragnheiður Elín Árnadóttir.