Flugger
Flugger

Pistlar

Kvaddagjéra?
Föstudagur 31. maí 2024 kl. 06:05

Kvaddagjéra?

Síðustu misseri hef ég verið svo heppin að fá að kenna nokkrum erlendum nemendum íslensku. Á mínu heimili eru töluð tvö tungumál og velti ég því oft fyrir mér hvernig það sé að læra íslensku öðruvísi en frá blautu barnsbeini. Ég hef alltaf haldið mikið upp á tungumálið okkar og í gegnum tíðina þótt það skemmtilegasta fagið í skólanum. Það er nefnilega svo merkilegt að við, þessi fámenna þjóð, skulum eiga svo ríkt tungumál að skrifaðar séu bækur, tímarit og tónlist á íslensku. Barnaefni er talsett og gefið er út sjónvarpsefni af íslenskum framleiðendum. Við erum óneitanlega stórasta landið í heimi.

Þegar ég stundaði nám á Spáni var íslenska tungan sérstaklega tekin fyrir í málvísindatíma vegna óvenjulegs fjölda sérhljóða. Eftir að kennarinn hafði sýnt okkur stutt myndband af Vigdísi Finnbogadóttur þar sem hún var að lesa ljóð um krumma spurði hann eina Íslendinginn sem nokkurn tímann hafði stigið fæti í þennan háskóla á Norður-Spáni um þessa sérstöðu í samanburði við önnur mál. Ég hafði aldrei velt þessu neitt sérstaklega fyrir mér svo þegar hann spurði hversu margir sérhljóðarnir væru stóð ég hreinlega á gati. „Örugglega svona tíu“, sagði ég flóttaleg á svip.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sama svip hef ég séð hjá nemendum mínum þegar ég reyni að útskýra fyrir þeim allar flækjur, fallbeygingar og undantekningar íslenskunnar. Ég reyni eftir fremsta megni að grípa í auðveld orð og byrja oftar en ekki á litunum. Gulur, rauður, grænn og blár. Það er nú ekkert svo flókið eða hvað? Gulur, gult, gulum, gulri, gular, guls, gulrar, gulari, gulastur, gulust. Svo erum við stundum með gulnaður eða gulleitur. Nemendurnir stara á mig eins og ég sé geimvera. „En á ensku er það bara yellow?“. Sko, fyrir það fyrsta viljum við alls engar enskuslettur því hér eru það aðeins þær dönsku sem þykja lekkerar!

Jæja, við skulum þá skoða nöfn. Þau ættu að vera auðveld. Hér er Íris, um Írisi, frá Írisi, til Írisar. Nemendur mínir horfa á mig hissa: „Írisar? – En heitirðu ekki Íris?“. Þetta finnst þeim afar sérstakt og upp í hugann á mér koma nöfn eins og Egill, Örn, Hrönn og Sif en læt það blessunarlega vera að reyna að útskýra fallbeyginguna á þeim bænum. „En hvað þýðir þá þetta jæja? Við heyrum það svo oft,“ spyrja þau. Það er nefnilega svo merkilegt að það fer allt eftir því hvernig maður segir orðið hvaða þýðingu það hefur. Er þetta „jæja, nú fer ég að koma mér“ eða „jæja, hættu nú þessu veseni og drífðu þig í skóna“?

Örlítið taugaóstyrk breyti ég um stefnu í leit að einhverju í einfaldari kantinum og renni létt yfir lýsingarorðalistann. Þarna eru orð eins og stór, lítill, góður, vondur, djúpur, grunnur. Ekki slæmt, hugsa ég, þetta ætti að verða auðvelt. Örlítið neðar á listanum koma þá fyrir eftirvæntingafullur, ómótstæðilegur, dúnamjúkur, þrælgóður, friðsamlegur og harðduglegur. Bíðum aðeins með það. Hinum megin á blaðinu eru svo sagnirnar: fara, fer, fór, fórum, færi og vera, er, erum, var, voruð, væruð. „Nei, nú skulum við bara reyna að spjalla svolítið á íslensku – ég skal byrja: Héddna… kvaddagjéra?“