Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Kirkjugarður stóriðjudrauma í Helguvík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 19. febrúar 2021 kl. 10:03

Kirkjugarður stóriðjudrauma í Helguvík

Verksmiðjubygging United Silicon og síðar Stakksbergs í Helguvík minnir marga á kirkjubyggingu. Sérstakt útlitið hefur vakið athygli en auðvitað miklu meira starfsemin í henni eða átti að fara fram. Að vinna kísilmálm til útflutnings.

Saga þessarar starfsemi hefur verið þyrnum stráð. Þó ekki alveg. Í byrjun voru það góðar fréttir að það væri verið að byggja verksmiðju sem myndi skafa fullt af störfum og kaupa þjónustu af fyrirtækjum á Suðurnesjum. Það var erfitt atvinnuástand eftir bankahrun. Álverið sem átti að gera það sama var hvergi nærri að fara í gang svo þetta var tilraun númer tvö. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar var fylgjandi verkefninu því það vildu jú allir sjá fleiri störf. Tvær Suðurnesja­skvísur, iðnaðarráðherra og eðalgrænn forseti bæjarstjórnar, tóku skóflustungu. Allir höfðu góða trú og enn meiri von. Þarna var ferðaþjónustufjörið ekki byrjað af neinu viti. Það gerðist skömmu síðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Svo tók verksmiðjan til starfa en hún gekk aldrei réttan snúning. Enn bundu menn vonir við að þetta yrði í lagi og skoðanakönnun meðal íbúa sýndi það. Þeir höfðu enn trú en líklega enn meiri von, þrátt fyrir hrakfarir í byrjun. Svo var verksmiðjunni lokað (tímabundið) og opnuð aftur, aftur lokað og að endingu dó hún. Reykur og ljót mengun fór illa í fólk og verksmiðjan sem hafði trú og von hjá bæjarbúum og bæjaryfirvöldum missti það allt saman.

Tilraun nýs félags í eigu Arion banka að endurbæta verksmiðjuna og endurbyggja til að selja til annars aðila var kynnt og málið rætt á opnum borgarafundi. Allt kom fyrir ekki. Nú vildi enginn kísilverksmiðju sem í raun skaffaði ekki mörg störf og gerði fátt annað en að rífa niður orðspor bæjarfélagsins. Og síðar sá Arion banki að það sama gæti gerst hjá honum. Að eiga svona mengunarskrímsli væri ekki gott fyrir orðsporið. Betra að afskrifa nokkra milljarða. Þó þeir séu orðnir tíu. Það er ódýrara og nú hækkar hlutabréfaverð allt að því daglega í bankanum. Og forráðamenn hans sögðu í síðustu viku að þeir ætluðu ekki í stríð við bæjaryfirvöld og bæjarbúa sem vilja ekki sjá þessa starfsemi í Helguvík. „Niðurfærsla þessarar eignar Arion í Helguvík er vísbending um að litlar vonir séu um að verksmiðjan muni starfa aftur. Áhugavert væri að sjá aðra og grænni starfsemi þar í framtíðinni.“ Sem sagt, ekki alvitlausir hjá Arion.

Undir þetta tekur formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar í stuttu viðtali við Víkurfréttir um framtíð kísilverksmiðju í Helguvík. Fagnar ákvörðun Arion banka. Nú sé stefnan tekin á grænni starfsemi og eftir því sem formaður bæjarráðs segir eru fyrirtæki áhugasöm að mæta og mála Helguvík græna. Hef grun um að margir myndu vilja leggja því lið en kannski ekki að mála kísilkirkjuna þannig. Ekki er óíklegt að hún verði „jörðuð“. Það myndu eflaust margir vilja hjálpa til í því verkefni.

Það má segja að í Helguvík sé kirkjugarður íslenskra stóriðjudrauma með hálfbyggðu álveri, yfirgefnu kísilveri og aflagðri fiskimjölsverksmiðju. Gleymum svo ekki teiknuðu kísilveri Thorsil sem átti að gnæfa yfir allt á Hólmsberginu.

Páll Ketilsson