Valhöll
Valhöll

Pistlar

Karlinn í tunglinu
Föstudagur 13. september 2024 kl. 06:09

Karlinn í tunglinu

Ljósanótt heppnaðist svona ljómandi vel og gaman var að sjá hve margir sóttu hátíðina. Samkvæmt skýrslum voru málin ekki ýkjamörg sem inn á borð lögreglunnar rötuðu að þessu sinni en þó einhver. Laganna verðir voru vel sýnilegir hvert sem litið var og urðu aðalumræðuefni samtals við ungan, þriggja barna faðir.

Honum var ansi heitt í hamsi varðandi stöðuna í þjóðfélaginu. Hann vildi meina að kerfið væri ekki að virka sem skyldi, menntamálin í flækju og jafnvel tunglgangurinn farinn að hafa meiri áhrif en talið var. Ungmenni væru orðin eins og ýlfrandi úlfar á fullu tungli. Bæru enga virðingu fyrir neinu og létu samfélagslegar reglur sig lítt varða. Hann hafði hlustað á fjöldann allan af hlaðvörpum, lesið fréttir og greinar, rannsóknir og hvaðeina. „Þetta er allt saman á bannsettri niðurleið,“ sagði hann rjóður í kinnum. Þegar hann hafði lokið máli sínu var svo komið að mér.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Við skulum gefa okkur það að þú komir heim eftir langan vinnudag og eitt af því fyrsta sem þú gerir er að sinna aukavinnunni, sem sagt þessari sem þú misstir af á ákvörðuðum vinnutíma; skrolla niður fésbókina, fara yfir sögurnar á Instagram, kíkja á óopnuð Snapchat-skilaboð, senda jafnvel tölvupósta og rúlla létt yfir fréttir, að ógleymdum íþróttafréttunum. Segjum sem svo að þessi aukavinna taki um það bil tvær klukkustundir en gætu orðið hátt í fjórar ef efnið er mikið umfangs. Hvað eru börnin þín að gera á meðan?“

„Þau hanga bara í símunum, alveg límd við skjáinn, og þessi yngsta kannski á YouTube.“ Jú, hann kannaðist nú reyndar alveg við það. Meiri skjáfíknin alltaf hreint.

Með þessu er annars þessi ágæti faðir búinn að opna aðgang barna sinni að öllum heiminum, líka hinum brenglaða og ofbeldisfulla hluta hans. Við vitum ekkert hvað þau sjá eða hafa yfirleitt séð á skjánum. Roðinn í kinnunum fór að breytast í fölva. „Já en við viljum nú ekki vera með nefið ofan í öllu sem þau gera, ha. Þau verða að eiga sér líf greyin.“

Við erum þorpið sem þarf til að ala upp börn. Þetta öryggisnet sem við heyrum svo ótal oft talað um. Við þurfum að taka spjallið við börnin okkar og vini þeirra. Búa til góðan grunn, byggðan á sjálftrausti og betri ákvarðanatöku. Vera til staðar. Líka fyrir þau börn sem eiga brotið bakland. Og líta ekki bara í hina áttina. Það er ekki við karlinn í tunglinu að sakast, heldur þann sem mætir okkur í speglinum. Okkur foreldrana. Þorpið.