Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Pistlar

Inn með ungviðið!
Laugardagur 10. september 2022 kl. 07:07

Inn með ungviðið!

September byrjar ótrúlega vel enda heilsaði hann okkur með fyrstu alvöru sumardögunum í ár og ekki seinna vænna segja margir. Frábærri Ljósanæturhátíð er þá lokið og þrátt fyrir flugeldasýningu í daufari kantinum þá er það mat manna að þessi hátíð sé með þeim bestu og fjölmennustu frá upphafi.

Skal engan undra að fólk hafi fjölmennt eftir Covid-árin en svo voru auðvitað frábærir viðburðir og afþreying í boði alla helgina ásamt því sem veðrið hreinlega lék við gesti. Sjálfur var ég á vakt um helgina og gat því lítið notið mín að þessu sinni en konan og drengirnir mínir skemmtu sér konunglega. Pjakkarnir mínir hentu sér í tívolí nánast alla dagana og tæmdist veskið hjá pabba gamla hraðar en þegar frúin skellir sér í IKEA. Þeir nutu sín þó í botn og það er fyrir mestu, pabbi gamli hafði heldur ekki rænu á því að kaupa miðana á afslætti, var staddur upp á golfvelli þegar þau kjör voru í boði og spilamennskan nokkuð góð svo það gleymdist eðlilega. Tónleikar voru svo út um allar trissur í bæjarfélaginu um helgina og miðað við samfélagsmiðlana voru þeir flestir ansi vel heppnaðir. Það voru reyndar smá vandræði með röðina á einhverjum tónleikunum í Stapa á laugardeginum en þeir sem náðu að komast inn skemmtu sér konunglega. Talað var um að unga fólkið væri að reyna að svindla sér inn og að dyraverðir hefðu vart undan við að skoða skírteinin til þess að sannreyna aldur ungviðisins og þess vegna orðið allur þessi flöskuháls sem orsakaði það að einhverjir urðu frá að hverfa. Bara að sleppa því að skoða þessi skírteini og hleypa ungviðinu á ball, sjálfur slapp ég á Stuðmannaball í Stapa sextán ára gamall og beið ekki af því mjög mikinn skaða.

Erum við ekki með of mikinn bómull í dag á ungviðið? Annars þá hlakkar manni mikið til þess að njóta Ljósanætur á næsta ári en samgleðst ykkur hinum sem nutuð í botn þetta árið. Miðjudrengurinn minn sá sína fyrstu útúrdrukknu manneskju á laugardagskveldinu, sagði pabba sínum stoltur frá því en bað mig svo vinsamlegast að hætta að drekka bjór því það væri stórhættulegt.

Ég lofaði honum að skoða það vel og vandlega en þó ekki fyrr en eftir Októberfest.