Pistlar

Hvasst í hrauni
Föstudagur 13. desember 2019 kl. 07:41

Hvasst í hrauni

Margeir Vilhjálmsson veltir fyrir sér flugvelli í Hvassahrauni í Lokaorðum

Yfirstaðið er væntanlega þegar þessi pistill birtist almenningi mesta óveður á Íslandi í áraraðir.  Við skulum vona að allt hafi farið vel og í versta falli nokkur trampólín verið til vandræða. Munurinn á því sem ég rita í dag og á ykkur sem lesið á miðvikudag eða fimmtudag er sú að þið vitið niðurstöðuna þegar sest er niður við lesturinn, en ég hef ekki hugmynd þegar ég skrifa. Bara giska. Er bjartsýnn og vona það besta. Ég er að horfa inn í nánustu framtíð, 48 klukkustundir fram í tímann. Ég nota að vísu ekkert Excel skjal en ekkert tölvuforrit hefur gert menn ríkari á skemmri tíma í huganum en Excel. Þar er hægt að setja inn allskyns reikningslegar forsendur og ríkidæmi er handan við hornið.

Þegar ég horfi til langrar framtíðar geri ég nefnilega ráð fyrir því að Play flugfélagið verði aðalflugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Icelandair mun flytja með alla sína starfsemi í Hvassahraun, því stækkunarmöguleikar verðandi flugvallar í Hvassahrauni eru svo miklu meiri en á Keflavíkurflugvelli, þar sem plássleysi hamlar stækkun flugvallarins. Isavia gerir bara ráð fyrir því að hægt verði að byggja 34 landgöngurana við Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í Flugstöð Dags B. Eggertssonar í Hvassahrauni verða þeir 54. Við verðum nefnilega að horfa langt, langt, langt inn í framtíðina til að átta okkur á því að það er svo miklu, miklu, miklu betra að vera með flugvöll í Hvassahrauni en á Miðnesheiði. Hvað voru Bandaríkjamenn eiginlega að hugsa þegar þeir völdu þessa staðsetningu og gáfu okkur alþjóðaflugvöll og flugstöð. Af hverju gátu þeir ekki valið Hvassahraun? Þar sem enginn býr. Og langt er fyrir alla að fara vinnuna, jafnvel þótt þeir búi í Hafnarfirði. Aldrei þarf að fljúga yfir byggð við lendingar og flugtak. Þetta er hin fullkomna staðsetning fyrir flugvöll. Af hverju hefur enginn rekið augun í þetta fyrr. Eru ekki tugþúsundir manna sem keyra þarna í gegn á hverjum einasta degi?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvassahraun er svo fáránlega hagkvæmt þegar búið er að gera ráð fyrir öllu fjármagninu sem fæst fyrir byggingarlandið í Vatnsmýri. Svo verður líka hægt að spara ennþá meira, því þegar það verður búið að leggja flugbrautir yfir Reykjanesbrautina þá verður hægt að einfalda hana aftur frá Hvassahrauni og í Reykjanesbæ. Bara nota gamla hlutann. Kaflinn frá Hafnarfirði og í Hvassahraun fer bara í tvöföldun, þegar flugvöllurinn verður klár. Þetta gerir ekkert nema spara peninga. Excel segir 300 milljarða kostnaður og 300 milljarða sparnaður.  Jafnt og núll. Þetta verður bara frítt. Einungis tvö erfið mál á eftir að leysa. Hvað á að gera við Hraðlestina hans Runólfs?  Og svo hitt - Hvað á að gera við Stopp hingað og ekki lengra hópinn á Facebook?

Ef ekki væri fyrir þessar tvær lykilspurningar væri algerlega búið að selja mér þessa hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni. Hann í fullkomnum takti við allt sem við sjáum í íslenskum stjórnmálum hvern einasta dag.

Fullkominn fávitaskap.