Pistlar

Heiðursmaðurinn Dúddi Gísla
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 2. desember 2022 kl. 07:17

Heiðursmaðurinn Dúddi Gísla

Það er eitt sem er ekki hægt að stöðva og það er tíminn. Tíminn líður áfram og núna þegar þessi pistill kemur þá er desember við það að ganga í hönd.

Nóvember hefur verið nokkuð góður fyrir sjósókn frá Suðurnesjum, þótt reyndar gerði frekar leiðindakafla núna í um viku og bátarnir, sem eru í Sandgerði á línu, gátu lítið róið. Þeir hafa nú reyndar náð að róa síðustu dagana í nóvember og fiskað vel. Ef við lítum á bátana sem hafa verið að róa frá Suðurnesjum þá er þetta svona:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Margrét GK með 93 tonn í fjórtán róðrum, Sævík GK með 94 tonn í þrettán róðrum, Jón Ásbjörnsson RE 51 tonn í tíu róðrum; Hópsnes GK 32 tonn í sjö róðrum, Katrín GK með 20 tonn í fimm róðrum og Daðey GK 61 tonn í ellefu róðrum. Allir að landa í Sandgerði nema Daðey GK var með nokkra róðra í Grindavík.

Í Grindavík er heimabáturinn Dúddi Gísla GK kominn en hann byrjaði nóvember á Skagaströnd og kom síðan suður – og kannski það merkilegasta við það var að hann byrjaði veiðar utan við Sandgerði og landaði þar um fimm tonnum. Dúddi Gísla GK er mjög sjaldséður bátur í Sandgerði því hann heldur sig að langmestu leyti í Grindavík.

Reyndar er þetta nafn, Dúddi Gísla, nú komið frá Sandgerði og mjög þekkt þar. Nafnið kemur frá skipstjóra og hafnarstarfsmanni í Sandgerðishöfn sem hét Þórhallur Gíslason. Þórhallur, eða Dúddi Gísla, var skipstjóri á bátum frá Sandgerði og mikill aflakóngur, var t.d. aflahæstur í Sandgerði 1961, 1962, 1963 og 1965. Þess má geta að árið 1961 var Dúddi aflahæstur í Sandgerði á bátnum Hamar GK 32 með 976 tonn í 83 róðrum og var þá næstaflahæstur yfir allt landið, þá var Gullborgin VE aflahæst. Kannski er það merkilegast við þennan afla hjá Dúdda Gísla, á vertíðinni árið 1961, að þá réri Gullborg VE á línu og netum í Vestmannaeyjum en Hamar GK, undir skipstjórn Dúdda Gísla, var á línu alla vertíðina frá Sandgerði.

Á vertíðinni 1964 voru tveir aflahæstu bátarnir á vertíðinni frá Sandgerði, þar sem Sigurður Sigurðsson, skipstjóri á Náttfara ÞH, var hæstur og þar á eftir kom Dúddi Gísla GK á Sæunni GK, báðir með um 1.200 tonna afla.

Eftir að skipstjórn Dúdda Gísla lauk þá vann hann lengi sem hafnarvörður og leiðsagði þeim skipum og togurum sem það þurftu inn til Sandgerðis, enda þekkti hann innsiglinguna og höfnina eins og handarbakið á sér.

Inni á Þekkingarsetrinu í Sandgerði, á annarri hæð, er stór og mikill skjöldur sem ég vann fyrir börn Dúdda Gísla en ég safnaði saman öllum skipstjórum, bátum og afla á vertíðum frá 1941 til 1991 og ef þið eigið leið í Sandgerði þá hvet ég ykkur til þess að fara í Þekkingarsetrið þar á efri hæðina og skoða þennan skjöld.

Kanski eru menn hundleiðir á því að ég sé alltaf að skrifa þetta en sagan er nú bara þannig að ein bestu fiskimið landsins eru á stóru svæði utan við Sandgerði og skjöldurinn ber þess merki, því að oft var það nú þannig að skipstjórar sem voru hæstir í Sandgerði voru oft á tíðum aflahæstir yfir Ísland á vetrarvertíðum og þessi mikli heiðursmaður, Dúddi Gísla, átti svo sannarlega þátt í því.