Pistlar

Góð veiði í stormasömum febrúarmánuði
Séð yfir hluta Vatnsness þar sem í áratugi var mikil saga fiskvinnslu, sem nú er á undanhaldi. VF/Hilmar Bragi
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 3. mars 2023 kl. 07:25

Góð veiði í stormasömum febrúarmánuði

Þrátt fyrir vægast sagt frekar stormasaman mánuð, sem þessi stysti mánuður ársins, febrúar er, þá var engu að síður mjög góð veiði og alltaf mokveiði hjá sumum bátunum eins og greint var frá varðandi Margréti GK í síðasta pistli. Reyndar þegar þessi pistill er skrifaður, þá voru Margrét GK og Óli á Stað GK, báðir aftur í mokveiði skammt utan við Sandgerði og báðir þurftu að tvílanda, Margrét GK með yfir 20 tonn og Óli á Stað GK með tæp 24 tonn.

Reyndar gengur hratt á kvótann hjá bátunum þegar svona mokveiði er og framundan er marsmánuður, sem hefur alltaf verið einn aflahæsti mánuður ársins. Núna í febrúar var byrjað að stoppa suma bátana, eins og t.d. Daðey GK og Sævík GK og þeim skammtaðir löndunardagar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Daðey GK þurfti að tvílanda fyrir nokkru síðan í Sandgerði og kom samtals með um 23,4 tonn í land og Sævík GK kom með fullfermi eða 19,2 tonn í land til Grindavíkur.

Í Keflavík voru það einungis netabátarnir sem voru að landa og voru þeir allir á veiðum í Faxaflóanum og líka við Garðskagavita. Ljósmyndarar sem eiga góða myndavél og öfluga linsu, ættu að getað myndað netabátana þegar þeir eru við Garðskagavita því þeir eru oft ekki það langt frá landi.  

Hjá netabátunum var Erling KE með 149 tonn í fimmtán róðrum og mest 21 tonn. Grímsnes GK 101 tonn í tólf og mest 23 tonn. Maron GK 42 tonn í ellefu og mest 6,3 tonn. Halldór Afi GK með 25 tonn í tíu og mest 5,9 tonn og í Grindavík var Hraunsvík GK með 4,4 tonn í einni löndun.

Til samanburðar má geta þess að í Breiðafirðinum voru þrír bátar sem náðu yfir 500 tonnin í febrúar og þeirra hæstur var Bárður SH með 802 tonn í 28 róðrum. Þessi bátur er því fyrir löngu búinn með sinn kvóta en veiðir kvóta fyrir Vinnslustöðina og Þórsnes ehf í Stykkishólmi.

Í síðustu Víkufréttum var frétt á baksíðu sem vakti athygli mína. Þar var greint frá því að ný deiliskipulagstillaga fyrir Vatnsnes og Hrannargötu, gerir ráð fyrir allt að 339 íbúðum í fimm til sex hæða húsum þarna á Vatnsnesi. Sjávarútvegslega séð vekur þetta nokkra athygli og eldra fólk man vel eftir því að Vatnsnes var fyrr á árum stór atvinnustaður fyrir fiskvinnslu. Þarna var t.d. Baldur HF með fiskverkun og Axel Pálsson var með fiskverkunarhús á Vatnsnesi. Eitt stærsta fyrirtækið sem var með verkun á Vatnsnesi var Hraðfrystihús Keflavíkur en það fyrirtæki gerði til dæmis út togarana Aðalvík KE og Bergvík KE, sem síðan var skipt út fyrir frystitogaranna Drangey SK frá Sauðárkróki og fékk sá togari nafnið Aðalvík KE. Rekstur þess skips gekk reyndar mjög illa. Húsnæðið sem að Hraðfrystihús Keflavíkur var í, gekk lengi vel undir viðurnefninu „Stóra Milljón“ og síðasta fiskverkunin sem var í því húsi var Hólmgrímur Sigvaldason með en hann er ennþá með útgerð og fiskverkun í Keflavík. Þetta húsnæði var rifið árið 2012.

Þessar hugmyndir um þessar 339 íbúðir í um 11 húsum, munu svo til endanlega gera útaf við allan atvinnurekstur á Vatnsnesi, en núna eru þarna t.d Ofnasmiðja Suðurnesja, Pústþjónusta Bjarkars og fiskvinnslan hjá Hólmgrími en þeir eru staðsettir í húsnæði sem að hýsti áður fiskverkun fyrir Baldur KE og Glað KE. Í raun má segja að þessar hugmyndir um allar þessar íbúðir, þýði endalok fyrir Keflavík sem útgerðarbæ, því að í Keflavík eru svo til allar fiskverkanir farnar í burtu og útgerð er engin. Vægast sagt frekar ömurleg þróun miðað við hvað Keflavík var stór og mikill útgerðarbær, svo til frá 1960 og vel fram yfir aldamótin 2000. 

En hvað verður þá um þau fyrirtæki sem munu þurfa að hverfa af Vatnsnesinu ef af þessum byggingarframkvæmdum verður? Jú, líklega munu þau finna sér annan stað en kannski er stóra spurningin, hvert fer fiskverkunin hjá Hólmgrími. Ekki bara fiskverkunin heldur útgerðin líka. Allavega eins og staðan er núna þá eru tvö góð hús í Sandgerði svo til laus. En við skulum sjá hvernig þetta mál fer. Mér finnst nokkuð merkilegt að þessi hugmynd er búin að vera hjá Reykjanesbæ síðan í maí árið 2022 en enginn hefur horft á sjávarútvegssöguna við Vatnsnes og hversu stóran hluta hún tengist sögu Keflavíkur. Kannski er fólki orðið alveg sama um sjávarútvegssöguna og fólk horfir kannski á Vatnsnesið sem útvistarparadís en horfir ekki á atvinnusöguna sem svæðið skapaði.