Er eitthvað skrýtið að ég rífist við sjónvarpið?
Ég hef í áranna rás leyft mér að taka óumbeðinn þátt í allskonar rökræðum og rifrildum við sjónvarpið, liggjandi flatur í hægindastólnum heima hjá mér. Ekki hef ég gert ráð fyrir að orðaflaumurinn bærist í gegnum sjónvarpið í upptökustúdíó í Reykjavík eða til útlanda ef því væri til að dreifa. Nýjasta rifrildið var þegar upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar birtist á skjánum og útskýrði ágæti upprunavottorða raforku. Tæknin er greinilega breytt. Nú virðast orkufyrirtæki landsins vera byrjuð að flytja græna orku til útlanda, með einföldum tölvupósti. Upprunavottorð raforku er það kallað og við á Íslandi nýtum nú raforku sem að meginhluta til er unnin úr kolum og kjarnorkuverum, sem samkvæmt íslenskum lögum er bannað að framleiða hér á landi eftir mínum bestu upplýsingum.
Þeir segjast geta grætt milljarða á þessu viðskiptamódeli. Við hér heima á Íslandi þurfum ekki á þessu upprunavottorði að halda. Það vita allir í heiminum að hér er nánast eingöngu notuð græn orka. En ef við þurfum af einhverjum ástæðum á slíku vottorði að halda getum við greitt fyrir það. Hafa ber í huga að margir héldu fyrir fáum áratugum að Íslendingar byggju í snjóhúsum og nýttu ísbirni í stað varðhunda.
Hugmyndin um þetta viðskiptamódel er af þeim sem til þekkja sögð stórsnjöll. Svona svipuð og að selja norðurljósin en til þess að sjá norðurljósin þurfa menn þó að koma til norðlægra landa, nema ljósmynd sé látin nægja. Hugmyndin um sölu upprunavottorða á að ýta undir þróun endurnýjanlegra og grænna orkugjafa. Það eru þeir sem menga sem greiða fyrir uppbyggingu grænnar orku. Hugmyndin virðist þó hafa snúist upp í andhverfu sína, íslensk fyrirtæki sem nota hreina orku eru annað hvort byrjuð eða verða í nánustu framtíð að greiða fyrir slík upprunavottorð.
Eftir því sem ég kemst næst er ekkert í regluverkinu sem liggur að baki þessum upprunavottorðum sem segir hvert selja megi slík upprunavottorð, eða því hvernig því fé sem inn kemur af sölu þessara vottorða skuli varið. Það kemur fram í ársreikningum orkufyrirtækjanna. Er það á einhvern hátt réttlætanlegt eða eykur það uppbyggingu á grænum orkugjöfum að upprunavottorð sé selt til að mynda orkusala eða fyrirtækis sem hefur það að meginmarkmiði grafa upp kol til og brenna? Þannig geta þau sagt þau noti græna orku til brunans.
Orkufyrirtækin hafa sagt að þau geti selt slík vottorð fyrir um það bil tuttugu milljarða. Sem er gott fyrir þau en er það gott fyrir alla? Samkvæmt þeim fréttum sem borist hafa þá er nú þegar búið að selja slík vottorð fyrir stórum hluta raforku framleiddrar á Íslandi. Hvaða áhrif hefur slíkt á framtíðaruppbyggingu allskonar iðnaðar og þjónustu á Íslandi? Er það ekki einmitt hreinleiki landsins og orkugjafanna sem ætti að skapa okkur samkeppnisforskot á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum nú?
Hvort sem mönnum líkar betur eða verr stendur jörðin okkar á tímamótum. Loftlagsvandinn er okkar allra stærsta vandamál í dag, ef hér á að vera búandi. Neysluviðmið stórs hluta jarðabúa hafa líka breyst. Fólk hugsar meira um hvernig og með hverju varan sem það kaupir er framleidd. Fólk vill að sú vara sem það kaupir sé framleidd á sem náttúruvænasta máta og mun krefjast þess þær vörulýsingar sem liggja að baki hverri vöru sé rétt og heiðarlegt. Þær kröfur stenst upprunavottorð á raforku til fyrirtækja í útlöndum ekki. Þannig upprunavottorð er ekki sannleikanum samkvæmt enda ekki til sú tækni að flytja rafmagn í gegnum tölvupóst. Er ekki komin tími til að ræða þetta af alvöru í stað þess að samþykkja yfirlýsingar aflátsbréfasalanna athugasemdarlaust? Er eitthvað skrýtið að ég rífist við sjónvarpið?