Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Enn af innviðum Reykjanesbæjar
Föstudagur 3. febrúar 2023 kl. 15:43

Enn af innviðum Reykjanesbæjar

Ég ritaði um það fyrr í vetur og víðar hefur það komið fram að innviðir Reykjanesbæjar eru nú við þolmörk. Sú mikla fólksfjölgun sem hefur orðið í sveitarfélaginu á síðustu árum hefur orsakað mikla vaxtaverki og mikilvægir innviðir eins og félagsþjónustan, heilbrigðisþjónustan, menntastofnanir og löggæslan hafa verið í töluverðum vanda.

Fyrst og fremst vantar fleiri starfsmenn, álag er mikið og aðstöðuleysið er umtalsvert vandamál víða. Sveitarfélagið þarf að ráðast í miklar fjárfestingar því allt kostar þetta peninga. Biðlistar hrannast upp víða og sem dæmi sótti ég t.d. mjög áhugaverðan fræðslufund í síðustu viku um börn með ADHD um úrræði og aðstoð sveitarfélaganna. Biðlistar eftir greiningum og í raun skortur á starfsfólki var eitthvað sem talsvert var nefnt á þessum fundi en þó ber að hrósa Reykjanesbæ fyrir sitt framlag í þessum málaflokki, það er verið að gera margt vel en með mikilli fólksfjölgun er ljóst að betur má ef duga skal. Starfsfólk hefur staðið sig gríðarlega vel í krefjandi aðstæðum en ríkisvaldið sem hefur fjársvelt svæðið svo áratugum skiptir, snýr sér í hringi og hefur ekki rétt út þá hjálparhönd sem þyrfti.  Reykjanesbær hefur lagt sitt á vogarskálarnar í móttöku flóttafólks og samningur um samræmda móttöku var framlengdur nú fyrir skemmstu. Aukið álag fylgir eðlilega á innviði bæjarfélagsins en þeir peningar sem ríkið lofar í þetta verkefni duga skammt. Velferðarráð Reykjanesbæjar hefur krafist þess að fyrir lok árs 2023 fækki þessum einstaklingum úr 350 niður í 150 með þeim rökum að innviðir bæjarfélagsins séu ekki að valda þessu eins og mál standa og fólk á mörgum stöðum að bugast undan álagi. Auðvitað er álag innviða bæjarins ekki þessu blessaða fólki um að kenna en það gefur auga leið að það er erfitt að hjálpa fólki á sómasamlegan hátt þegar kerfin okkar (innviðir) ráða illa við verkefnið. Því er mun betra að taka á móti færri einstaklingum/fjölskyldum og gera það vel. Við getum alls ekki opnað dyrnar upp á gátt og vonast til því að ríkið komi svo til bjargar með fjármagn sem svo aldrei kemur. Efla þarf alla okkar innviði en slíkt kostar mikla peninga og tekur sinn tíma. Á meðan þarf að sýna skynsemi og færast ekki of mikið í fang. Við getum aldrei hjálpað öllum en hjálpum engum þegar innviðirnir eru ekki til staðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanesbær hefur ekkert til að skammast sín en sveitarfélagið hefur heldur betur lagt sitt af mörkum í þennan málaflokk og mun halda því áfram í framtíðinni á skynsaman hátt og láta ekki ríkið stjórna ferðinni. Því fagna ég bókun velferðarráðs Reykjanesbæjar og verður fróðlegt að sjá stöðuna í lok árs 2023.